„Það er líka gaman að sjá að þetta eru allt konur“

Poppkúltúr | 5. febrúar 2024

„Það er líka gaman að sjá að þetta eru allt konur“

„Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart,“ segir Sigtryggur Baldursson, betur þekktur sem Bogomil Font, um sigur íslensku tónlistarkonunnar Laufeyjar Lín Jónsdóttur á Grammy-verðlaunahátíðinni í nótt.

„Það er líka gaman að sjá að þetta eru allt konur“

Poppkúltúr | 5. febrúar 2024

Sigtryggur Baldursson er stoltur af árangri Laufeyjar.
Sigtryggur Baldursson er stoltur af árangri Laufeyjar. Samsett mynd

„Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart,“ segir Sigtryggur Baldursson, betur þekktur sem Bogomil Font, um sigur íslensku tónlistarkonunnar Laufeyjar Lín Jónsdóttur á Grammy-verðlaunahátíðinni í nótt.

„Ég get ekki sagt að þetta hafi komið mér á óvart,“ segir Sigtryggur Baldursson, betur þekktur sem Bogomil Font, um sigur íslensku tónlistarkonunnar Laufeyjar Lín Jónsdóttur á Grammy-verðlaunahátíðinni í nótt.

Hún sigraði fyrir plötu sína Bewitched í flokki hefðbundinna söng-poppplatna (e. traditional pop vocal album). Með sigri sínum varð Laufey þriðja íslenska konan til að vinna Grammy-verðlaun, en Hildur Guðnadóttir og Dísella Lárusdóttir hrepptu verðlaun á hátíðinni 2020 og 2022. 

Í flokki með stórstjörnum

Sex hlutu tilnefningu í flokki Laufeyjar en á meðal þeirra voru Bruce Springsteen með plötuna Only the Strong Survive, hljómsveitin Pentatonix með plötuna Holidays Around the World og Rickie Lee Jones með plötuna Pieces of Treasure. 

„Þeir sem voru tilnefndir í hennar flokki voru mun eldri og reyndari listamenn, eins og Ricki Lee Jones og Bruce Springsteen, þvílíkar stórstjörnur. Það var hreinlega stórmagnað að hún skyldi vinna þetta,“ segir Sigtryggur sem er himinlifandi og segir þetta mikinn sigur fyrir íslenskt tónlistarlíf og menningu. 

Er ekkert óvenjulegt að svona nýr listamaður sigri í flokki með svona þekktum listamönnum?

„Jú, mér finnst það. Þetta er magnað og alveg hreint stórkostlegt. Þetta var hennar ár í fyrra, hún var á fullu að springa út og það er því mjög ánægjulegt að sjá hana vinna þetta á leiðinni upp,“ segir Sigtryggur. 

Laufey Lín með Grammy-verðlaunin.
Laufey Lín með Grammy-verðlaunin. AFP

„Hreinn og beinn gæðastimpill“

Aðspurður segir Sigtryggur sigur Laufeyjar varpa ákveðnu ljósi á Ísland og tónlistarsenu landsins. „Hún er alþjóðlegur listamaður, starfandi alþjóðlega, en hefur reyndar alltaf talað um sig sem íslenskan listamann,“ segir hann. „Það er mikið „boost“ fyrir íslensku tónlistarsenuna og getur án efa hjálpað öðrum íslenskum listamönnum sem eru í sömu eða svipuðum hugleiðingum.“

„Það er líka gaman að sjá að þetta eru allt konur,“ segir Sigtryggur þegar hann ræðir um íslensku handhafa Grammy-verðlaunanna. „Þrjár íslenskar konur, flottir fulltrúar íslenskrar tónlistar. Mér finnst það mjög jákvætt. Það er frábær stuðningur við íslenskt tónlistarlíf og sýnir hvað konur eru framarlega. Ég myndi reka nefið í það, ef ég væri erlendur blaðamaður,“ segir hann og hlær.

Hvað hefur sigurinn að segja fyrir Laufeyju?

„Þetta er hreinn og beinn gæðastimpill. Þegar fólk er að fá Grammy-verðlaun þetta snemma á ferlinum þá er það mikill og góður stuðningur á margan, margan hátt. Þetta opnar margar dyr fyrir hana og eins og hún segir sjálf þá langar hana að sjá sína tónlist meira í bíómyndum, þetta ætti að hjálpa til með það,“ segir Sigtryggur. 

mbl.is