Óvíst hvenær vextir lækka

Vextir á Íslandi | 7. febrúar 2024

Óvíst hvenær vextir lækka

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir erfitt að svara því núna hvenær aðstæður skapist til vaxtalækkunar. Honum líst vel á hugmyndir verkalýðshreyfingar í yfirstandandi kjaraviðræðum og telur ekki að hamfarirnar í Grindavík muni setja húsnæðismarkaðinn úr skorðum.

Óvíst hvenær vextir lækka

Vextir á Íslandi | 7. febrúar 2024

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir óvíst hvenær hægt sé að lækka …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir óvíst hvenær hægt sé að lækka vexti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir erfitt að svara því núna hvenær aðstæður skapist til vaxtalækkunar. Honum líst vel á hugmyndir verkalýðshreyfingar í yfirstandandi kjaraviðræðum og telur ekki að hamfarirnar í Grindavík muni setja húsnæðismarkaðinn úr skorðum.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir erfitt að svara því núna hvenær aðstæður skapist til vaxtalækkunar. Honum líst vel á hugmyndir verkalýðshreyfingar í yfirstandandi kjaraviðræðum og telur ekki að hamfarirnar í Grindavík muni setja húsnæðismarkaðinn úr skorðum.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í dag að vextir bankans héldust óbreyttir og verða þeir því áfram 9,25%.

„Verðbólgan er enn töluvert frá settu marki, eða 6,7%  Það er mikið af óvissuatriðum í gangi núna. Stýrivextir eru enn mjög háir, þannig að það er mjög þétt aðhald að kerfinu. Við verðum því að bíða og sjá. Aðgerðirnar eru eftir sem áður að virka. Peningastefnan er að virka,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

Nær engin skuldavandræði hafa komið fram

Ásgeir segir ýmsar hliðaraðgerðir bankans líka vera að gefa góða raun. Markmið þeirra sé að uppgangur í raunhagkerfinu smitist ekki yfir í fjármálakerfið.

„Við höfum því séð að nær engin skuldavandræði hafa komið fram. Við erum með banka sem hafa farið frekar varlega í útlán. Við erum því ekki að fást við lánabólu, heldur sjóðandi heitt raunhagkerfi.“

Grindavík setur ekki allt úr skorðum

Ásgeir telur hamfarirnar í Grindavík ekki munu hafa slík áhrif á þjóðarbúið eða á framboð íbúðarhúsnæðis að allt fari úr skorðum.

„Ég held að áhrif þess að Grindavík er ekki lengur búsetuhæf muni helst hafa áhrif á Reykjanesskaga og þar í kring. Ég tel langflesta íbúa Grindavíkur vilja vera þar um kring. Ég tel Grindvíkinga síður vera að sækja í einhverja þéttingarreiti hér á höfuðborgarsvæðinu. Þannig að ég tel áhrifin verða mest svæðisbundin. Ég held að það breyti ekki stóru myndinni hér á höfuðborgarsvæðinu.“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í sambandi við möguleg fjárútlát hins opinbera vegna hamfaranna telur Ásgeir að áhrifin verði ekki of mikil.

„Hið opinbera hefur verið að kaupa þó nokkrar íbúðir undanfarna mánuði vegna ástandsins í Grindavík og við höfum ekki séð nein sérstök áhrif af því. Það sem þó auðvitað skiptir máli er hvernig hið opinbera fjármagnar þetta verkefni. Það hefur áhrif hvort tekið er erlent lán, hvort það er gert með því að sækja lán hér innanlands eða með því að selja eignir, eða með frekari skattlagningu. En vitaskuld hefur aukning í ríkisútgjöldum alltaf einhver áhrif og þau geta farið mjög víða.“

Líst vel á hugmyndir verkalýðshreyfingarinnar

Seðlabankastjóri var spurður hvert svigrúmið til launahækkana væri í yfirstandandi kjaraviðræðum miðað við verðbólgumarkmið bankans.

„Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvert svigrúmið er til launahækkana. Alla jafnan er það minna þegar ekki er sókn í hagkerfinu, eins og staðan er að einhverju leyti. Við erum að sjá bakslag í hagvexti í Evrópu. Lífskjör Íslendinga hafa almennt batnað á undanförnum árum. Það má rekja meðal annars til uppgangs í ferðaþjónustu.“

Ásgeir segist ánægður með það frumkvæði í hugmyndum sem hann heyrir innan úr verkalýðshreyfingunni, svo sem um tímabundið frost á launahækkanir gegn því að gjaldskrárhækkanir séu felldar niður.

„Mér líst vel á nýstárlegar hugmyndir sem komið hafa frá verkalýðshreyfingunni. Lífskjör fólks ráðast af fleiru en laununum einum. Lífskjör geta til dæmis ráðist af því hvenær fólk kom inn á fasteignamarkaðinn. Ég tel það mjög ánægjulegt að verið sé að tala á þessum nótum.“

Ríkisstjórnin geti ekki gert allt fyrir alla

Í sambandi við fyrirhugaðar opinberar framkvæmdir segir Ásgeir:

„Forgangsröðun opinberra framkvæmda skiptir miklu máli. Það má færa rök fyrir því að við þurfum fjárfestingu í innviðum. Það er mjög mikilvægt að ríkisstjórnin skilji að hún getur ekki gert allt fyrir alla. Það er því hlutverk pólitískra stjórnvalda að forgangsraða.

Hvað viðvíkur Seðlabankanum þá horfum við á heildarútgjöldin og hvernig þau eru fjármögnuð, en hugsum ekki út í einstaka framkvæmdir. Þá skiptir líka miklu að opinberar framkvæmdir séu innan fjárlagaramma.“

„Þetta er erfitt verkefni“

Um framtíðina segir Ásgeir að síðustu:

 „Á sama tíma vil ég leggja áherslu á það að við erum lítið og opið land. Allt veltur á því hvernig okkur gengur að flytja út, á samkeppnishæfni okkar. Það er því fjöldamargt sem gerist sem við ráðum ekkert yfir. Þó að íslenska þjóðin vilji stöðugleika, þá erum við í mjög óstöðugu umhverfi. Það er því gríðarlegt verkefni bæði fyrir ríkisstjórnina og seðlabankann að ætla að tryggja stöðugleika. Þetta er erfitt verkefni.“

mbl.is