Talsmaður Ísraelshers hefur viðurkennt að hermenn hafi gert mistök er þeir hófu skothríð á mannmörgu markaðstorgi í bænum Jenin á Vesturbakkanum í gær en Palestínumenn segja að þrjú börn og einn fullorðinn hafi látist í árásinni. Líklegt er talið að rekja megi árásina til misskilnings. Talsmaður hersins segir að hermenn hafi skotið tveimur skriðdrekaskotum til að tvístra mannfjölda sem hafi brotið útgöngubann en íbúar Jenin eru sagðir hafa talið að útgöngubanni hafi verið aflétt er árásin var gerð.