Chirac lýsir því yfir að Frakkar hafi fellt stjórnarskrá ESB

Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal andstæðinga stjórnarkskrár ESB þegar fyrstu …
Mikil fagnaðarlæti brutust út meðal andstæðinga stjórnarkskrár ESB þegar fyrstu tölur voru birtar í kvöld. AP

Jacques Chirac, forseti Frakklands, sagði í sjónvarpsávarpi á níunda tímanum í kvöld að Frakkar hafi hafnað nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu í dag. „Frakkland hefur tjáð sig með lýðræðislegum hætti. Þetta er réttmæt ákvörðun ykkar og ég mun taka tillit til hennar," sagði Chiarc.

Hann sagði að önnur ESB-ríki muni halda áfram staðfestingarferlinu óháð niðurstöðunni í Frakklandi og það sama kom fram í yfirlýsingu frá forsætisráðherra Lúxemborgar, sem fer með forsæti ESB um þessar mundir.

Þegar búið var að telja um 90% greiddra atkvæða í kvöld höfðu 55,96% þeirra sem afstöðu tóku sagt nei en 44,04% sagt já. Um 30% atkvæða voru hins vegar auð.

Jean-Pierre Raffarin, forsætisráðherra Frakka, sagði að úrslitin væru mikil vonbrigði. „Franskir karlar og konur hafa lýst skoðun sinni. Þau gerðu það í lok mikillar umræðu um stjórnarskrána, tilfinningaríkrar umræðu sem verður minnst í lýðveldi okkar," sagði Raffarin. Búist er við að hann missi embætti sitt í kjölfar úrslitanna í dag en Chirac hefur gefið til kynna, að hann muni stokka upp í ríkisstjórn Frakklands á næstunni.

Philippe de Villiers, sem var í forustu þeirra sem börðust gegn stjórnarskránni í Frakklandi, lýsti því yfir að stjórnarskráin væri marklaust plagg. Nauðsynlegt væri að endurbyggja Evrópu og reisa nýjar valdastofnanir. Þá hvatti de Villiers Chirac til að segja af sér embætti og að franska þingið yrði rofið. Jean-Marie Le Pen, leiðtogi hægriöfgamanna í Frakklandi, krafðist þess einnig að Chirac segði af sér.

Embættismenn Evrópusambandsins hafa sagt að þótt Frakkar hafni stjórnarskránni muni önnur lönd halda sínu striki en þeir hafa ekki viljað segja af eða á um hvort hægt væri að semja um breytingar á stjórnarskránni og leggja breytta stjórnarskrá fyrir nýja atkvæðagreiðslu í Frakklandi.

Günter Verheugen, varaforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði í kvöld, að niðurstaðan í Frakklandi væri ekki jákvæð en þó væri ekki um að ræða alvarlegt áfall fyrir Evrópu.

Jacques Chirac, forseti Frakklands, greiddi atkvæði Í Sarran í suðvesturhluta …
Jacques Chirac, forseti Frakklands, greiddi atkvæði Í Sarran í suðvesturhluta Frakklands. AP
mbl.is