Samgöngur í London smám saman að komast í eðlilegt horf

Ferðalangar bíða með farangur sinn á Waterloo stöðinni í Lundúnum …
Ferðalangar bíða með farangur sinn á Waterloo stöðinni í Lundúnum í dag. AP

Samgöngur í London eru smám saman að komast í eðlilegt horf eftir sprengjuárásirnar í dag. Neðanjarðarlestakerfið liggur þó enn niðri en nokkrir strætisvagnar eru aftur byrjaðir að keyra um í miðborginni. Sprengjuhótanir hafa þó verið að berast sem þýðir að ástandið getur breyst skyndilega. Milljónir manna eiga eftir að lenda í vandræðum með að komast heim og margir hafa gripið til þess ráðs að fá sér hótelherbergi.

Búist er við því að neðanjarðarlestirnar verði áfram lokaðar fram til morguns. Margar hefðbundnar lestir ganga en þær stoppa ekki við ákveðnar lestarstöðvar, að því er fram kemur í frétt BBC.

„Augljóslega viljum við ekki að fólk þyrpist allt út úr miðborginni í einu og það verður erfitt að koma fólki heim í kvöld, en ég veit að allir munu vinna saman að því að fólk komist heim á sem bestan hátt,“ segir Andy Trotter, hjá umferðarlögreglunni í London.

Hraðlestin frá Heathrow-flugvelli er farin að ganga aftur en Stansted hraðlestin fer ekki að endastöðinni við Liverpool Street.

Nokkrir strætisvagnar í miðborginni eru farnir að ganga en talsverðar seinkanir eru á áætlun. Mikið öryggiseftirlit er í öllum strætisvögnum.

Flug um Heathrow-flugvöll, Stansted og Gatwick er samkvæmt venju en búast má við seinkunum á Heathrow.

Vegir við staðina þar sem sprengjurnar voru sprengdar eru lokaðir en mikil umferð er um vegi út úr borginni.

Fólk sem átti erindi á Heathrow flugvöll og lenti í …
Fólk sem átti erindi á Heathrow flugvöll og lenti í umferðaröngþveiti ákvað margt að ganga með töskur sínar síðasta spölinn. AP
Mikil umferð gangandi vegfarenda hefur verið í Lundúnum í dag …
Mikil umferð gangandi vegfarenda hefur verið í Lundúnum í dag en þjónustu jarðlesta og strætisvagna var hætt tímabundið eftir sprengjuárásirnar í morgun. AP
Langar bílaraðir mynduðust í nágrenni við Heathrow flugvöll utan við …
Langar bílaraðir mynduðust í nágrenni við Heathrow flugvöll utan við Lundúnir í dag. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert