Múslimar í London óttast áreiti í kjölfar árásanna

Maður í Pakistan les um árásirnar í London í dag.
Maður í Pakistan les um árásirnar í London í dag. AP

Múslimar í London óttast að ofbeldi og áreiti gegn þeim muni aukast í kjölfar sprengjuárásanna í gær en margir þeirra komu saman við eina af stærstu moskum borgarinnar til að biðja í dag.

„Í morgun þegar ég var að keyra í vinnuna heyrði ég konu í útvarpinu segja að það togað hefði verið í blæjuna hennar. Ég varð sleginn, hreinskilnislega sagt,“ sagði Ahmed Shafi, 31 árs. „Maður býst ekki við þessu, ekki á þessum tímum. Maður býst ekki við þessu í svo alþjóðlegu samfélagi.“

Næstum því tíundi hluti Lundúnabúa eru múslimar en íbúar borgarinnar eru alls átta milljónir. Þeir hafa í langan tíma verið hluti samfélagsins í borginni en nú eru margir þeirra óttaslegnir.

„Einhver heimskur hálfviti sem hefur misst vitið gerði þetta. ... Hvað hefur trú með þetta að gera? Ég er múslimi og ég þori ekki inn í borgina,“ sagði Abdul Mukith, 37 starfsmaður í matvöruverslun í helsta hverfi Bangladeshmanna í borginni.

Ian Blair, yfirmaður Lundúnalögreglunnar, sagði í dag að lögregla hefði fengið fréttir af einu eða tveimur atvikum þar sem múslimar komu við sögu, en hann skýrði það ekki nánar. „Við erum að ræða við leiðtoga moska, og ekki einungis leiðtoga moska heldur öll trúarsamfélögin,“ sagði hann.

Tony Blair forsætisráðherra sagði að sprengjuárásirnar bæru merki Osama bin Laden en að ekki væri við islam að sakast. „Við vitum að þetta fólk lætur til skarar skríða í nafni islam en við vitum líka að langstærstur hluti múslima, hér og erlendis, er almennilegt fólk sem fer að lögum og hryllir alveg jafn mikið við hryðjuverkum og okkur,“ sagði hann.

Muhammad Abdul Bari, yfirmaður moskunnar í Austur-London, var ánægður með þessi orð Blair. Hann sagðist hafa áhyggur en að hann teldi þó að vandamálið myndi líða hjá. „Fólk stendur saman í London. Við erum Lundúnabúar.“

Moskunni höfðu borist nokkur tölvupóstbréf en engar hótanir og það var ekki aukin löggæsla þegar föstudagsbænir fóru fram í moskunni.

Imran Waheed, talsmaður Hizb ut-Tahrir í Bretlandi, sem eru stór alþjóðleg stjórnmálasamtök múslima, sagði að þrátt fyrir að „mikil og nákvæm skoðun á samfélagi okkar fari fram eftir árásirnar, er mikilvægt að múslimasamfélagið verði ekki þaggað niður þegar kemur að því að ræða nýlendustefnu vestrænna ríkisstjórna.“

Þá gagnrýndi hann hvað allir væru fljótir að álykta að múslimar hefðu staðið fyrir árásunum.

„Það er hörmulegt að sumir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur kenni múslimum um þessar árásir án þess að það hafi verið sannað, því múslimar hafa meiri reynslu í að vera fórnarlömb hryllings heldur en gerendur,“ sagði hann.

Shafi sagði að hann og aðrir múslimar myndu þurfa að þola störur og fjandskap næstu daga og vikur. „Ég er múslimi, ég er með skegg. Eftir 11. september kallaði fólk mig Osama bin Laden. En ég er fæddur hér og uppalinn, og ég lít ekki á mig sem neitt annað en Breta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert