Talið að sami maður hafi skipulagt hryðjuverkin í Lundúnum og Madrid

Blómvendir hafa verið lagðir við inngang King's Cross lestarstöðvarinnar í …
Blómvendir hafa verið lagðir við inngang King's Cross lestarstöðvarinnar í Lundúnum en þar sprakk ein sprengjanna á fimmtudag. AP

Sérfræðingar telja að höfuðpaurinn sem skipulagði hryðjuverkin í síðustu viku hafi farið úr landi löngu áður en árásirnar voru framkvæmdar. Er talið er að hann hafi kynnt sér neðanjarðarlestarkerfi Lundúna í þaula og legið yfir áætlunum lesta sem koma við á King’s Cross. Þá sé hugsanlegt að um sama aðila sé að ræða og skipulagði hryðjuverkin í Madrid á síðasta ári. Augu sérfræðinga beinast að 46 ára Sýrlendingi sem bjó í Lundúnum fram undir miðjan síðasta áratug en fluttist til Afganistans í þeim tilgangi að setja á stofn þjálfunarbúðir fyrir hryðjuverkamenn.

Leitin að höfuðpaur hryðjuverkanna í Lundúnum fer fram í mörgum löndum, allt frá Norðurlöndunum til Pakistans og Afganistans. Nöfn hugsanlegra ódæðismanna hafa komið upp en óvíst er hvort um sé að ræða háttsetta einstaklinga úr röðum al-Qaeda eða aðra minna þekkta einstaklinga sem hlotið hafi þjálfun undir þeirra verndarvæng.

Þá er einnig talið að höfuðpaurinn geti verið innflytjandi frá Norður-Afríku sem hafi flúið til Austurlanda, hugsanlega Íraks, sem geri sérfræðingum á vegum Scotland Yard, sem sjá um rannsókn málsins, erfitt um vik.

Sérfræðingar á vegum Scotland Yard hafa unnið náið með lögregluyfirvöldum á Spáni. Talið er að um sama aðila sé að ræða sem lagði á ráðin um hryðjuverkin í Madrid á síðast ári en hann hefur aldrei náðst.

Samkvæmt breska dagblaðinu Times í dag beinast augu sérfræðinga frá báðum löndum að Mustafa Setmariam Nasar, 46 ára Sýrlendingi með spænskan ríkisborgararrétt. Nasar bjó í Lundúnum fram undir miðjan síðasta áratug og fluttist til Afganistans til að setja á laggirnar þjálfunarbúðir fyrir hryðjuverkamenn. Er talið að hann hafi fengið marga unga Breta til liðs við sig. Fimm milljónir punda hafa nú verið settar til höfuðs honum en talið er að hann sé í felum í Írak.

Þá leita lögregluyfirvöld í Danmörku að manni að nafni Abu Rashid, sem einnig er frá Sýrlandi en bjó í nágrenni Árósa. Hann er talinn hafa verið aðstoðarmaður Nasars í þjálfunarbúðunum í Afganistan.

Talið er að allt að 3000 manns frá Bretlandi hafi hlotið þjálfun í búðum Nasars í Afganistan á síðustu tíu árum. Ekki er vitað með vissu um afdrif mannanna en talið er að einhverjir þeirra hafi barist með uppreisnarmönnum í Kasmír, Tétsníu og Írak. Sérfræðingar telja þó víst að meirihluti þeirra hafi flust aftur til Bretlands að þjálfun lokinni.

Flak strætisvagnsins sem sprengdur var í loft upp í við …
Flak strætisvagnsins sem sprengdur var í loft upp í við Tavistock Square í Lundúnum á fimmtudag í síðustu viku. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert