Lundúnalögregla birtir myndir af fjórum mönnum vegna sprenginganna í gær

Ein af myndunum fjórum, sem lögreglan í Lundúnum birti í …
Ein af myndunum fjórum, sem lögreglan í Lundúnum birti í dag. Myndin var tekin á Oval brautarstöðinni í gær af manni sem talinn er hafa skilið eftir sprengju í lest. Bolurinn, sem maðurinn er í, fannst síðar í Brixtonhverfinu. Reuters

Lögreglan í Lundúnum sýndi í dag myndir úr öryggismyndavélum af fjórum mönnum, sem hún segist nauðsynlega þurfa að yfirheyra vegna sprenginga í þremur járnbrautarvögnum og strætisvagni í borginni í gær.

Fram kom á blaðamannafundi, að lögreglan hefur í dag gert húsleit á þremur stöðum í Lundúnum. Þá sagði lögreglan, að sprengjuárásirnar í gær væru í ýmsum atriðum svipaðar og árásirnar, sem gerðar voru 7. júlí. Einnig kom fram að sprengjurnar hefðu verið heimatilbúnar.

Ian Blair, lögreglustjóri í Lundúnum, sagði á fundinum, að lögreglan stæði frammi fyrir áður óþekktri ógn og mikilli hættu. Hann lagði áherslu á að aðgerðir lögreglunnar beindust gegn glæpamönnum en ekki tilteknum samfélögum eða hluta af samfélagi.

Þá sagði Blair, að aðgerðirnar á Stockwell brautarstöðinni í morgun, þar sem lögregla skaut karlmann til bana, tengdist beint yfirstandandi aðgerðum gegn hryðjuverkastarfsemi. Lögregla hefði beint skipunum til mannsins en hann neitaði að hlýða.

Mynd sem tekin var á brautarstöð við Warren Street í …
Mynd sem tekin var á brautarstöð við Warren Street í gær. Reuters
Mynd af manni í Westbourne Grove brautarstöðinni áður en hann …
Mynd af manni í Westbourne Grove brautarstöðinni áður en hann hélt til Shepherd's stöðvarinnar. Reuters
Mynd af manni, sem talinn er hafa skilið sprengju eftir …
Mynd af manni, sem talinn er hafa skilið sprengju eftir í strætisvagni í Lundúnum. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert