Lögregluaðgerðir standa yfir í Lundúnum

Umfangsmikil lögregluaðgerð stendur nú yfir í Lundúnum.
Umfangsmikil lögregluaðgerð stendur nú yfir í Lundúnum. AP

Lögregluaðgerðir standa nú yfir í Notting Hill hverfinu í vesturhluta Lundúna í tengslum við rannsókn á hryðjuverkaárásum í borginni. Að sögn fréttavefjar BBC eru lögreglumennirnir vopnaðir. Sky sjónvarpsstöðin segir að sprengingar hafi heyrst á svæðinu og um sé að ræða mun umfangsmeiri aðgerðir en gerðar hafi verið frá því reynt var að sprengja sprengjur í lestum og strætisvagni 21. þessa mánaðar. Talið er að lögregla sé að leita að einum mannanna, sem reyndu að fremja þær árásir.

Sky hefur eftir sjónarvottum, að lögreglumenn vopnaðir vélbyssum og með gasgrímur hafi lokað Tavistock Road og næstu götum um klukkan 10:30 að íslenskum tíma. Tavistock Road er skammt frá Westbourne Park lestarstöðinni en þar tók maður neðanjarðarlest og reyndi síðan að sprengja sprengju í lestinni þegar hún var skammt frá Shepherd's Bush lestarstöðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert