Spá kaldasta vetri í áratug í Bretlandi

Veðurfræðingar í Bretlandi óttast að veturinn sem nú er genginn í garð verði sá kaldasti í landinu í tíu ár og að það kunni að stefna orkubirgðum landsins í hættu. Breska veðurstofan hefur varað heilbrigðisþjónustuna, ríkisstjórnina og fyrirtæki innan orkuiðnaðarins við því að ástandið geti orðið alvarlegt.

Óttast menn jafnvel að þjóðin geti orðið uppiskroppa með eldsneyti en gasbirgðir eru mun minni í Bretlandi en í öðrum löndum Evrópu, segir í frétt á vefsíðu fréttastofunnar Sky. Breska dagblaðið The Times hefur greint frá því að ríkisstjórnin muni halda neyðarfund með hæstráðendum fyrirtækja í iðnaði og orkuveitu.

Formaður samtaka iðnaðarins í Bretlandi, Sir Digby Jones, sagði í viðtali við fréttastofuna að ef veturinn yrði eins kaldur og spáð hefði verið yrði líklega að loka iðnaðarfyrirtækjum og öðrum sem væru með orkufrekan rekstur.

mbl.is