40% látinna á Búrma börn

Talið er að 40% þeirra sem létust eða er saknað eftir að fellibylur reið yfir Búrma á laugardag séu börn, samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegu hjálparsamtökunum Save the Children. Telja samtökin að mun fleiri hafi látist heldur en opinberar tölur gefa til kynna. Stjórnvöld hafa tilkynnt um að 22 þúsund séu látnir og ein milljón manna hafi misst heimili sín.

Að sögn Andrew Kirkwood, sem stýrir starfi Save The Children á Búrma, eru börn 40% íbúa þeirra svæða sem urðu verst úti um helgina. Því megi gera ráð fyrir að 40% þeirra sem er saknað eða létust séu börn yngri en átján ára.

Íbúar Búrma eru um 57 milljónir og tæpur fjórðungur þeirra býr á hamfarasvæðunum. Um 95% íbúðarhúsanna í Bogalay, 190.000 manna borg, skoluðust burt í 3,5 metra hárri flóðbylgju og flestir íbúanna eru heimilislausir.

Mjög erfitt er að koma hjálpargögnum til bæja sem urðu verst úti þar sem vegir eru ónýtir og stór svæði undir vatni. Starfsmenn hjálparstofnana segja að ástandið á hamfarasvæðunum sé skelfilegt og lík liggi eins og hráviði á hrísgrjónaökrum. Fólk, sem lifði óveðrið af, hefur verið matar- og vatnslaust í fimm daga.
  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert