Clinton heldur baráttunni áfram

Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður hét því í gær að halda á fram baráttu sinni fyrir því að verða forsetaframbjóðandi demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember, þrátt fyrir að vonir hennar um stórsigur í prófkjörum í gær hafi ekki staðist og fjáröflun vegna framboðs hennar hafi ekki gengið vel að undanförnu.

„Ég er svo glöð yfir því að vera hér í Vestur Virginíu og spennt yfir næstu viku þegar við heyjum baráttuna um framtíð lands okkar hér í þessu fallega ríki,” sagði hún í Shepherd háskólanum í Vestur Virginíu í gær en næsta prófkjör flokksins fer fram í ríkinu í næstu viku.

Clinton staðhæfði á blaðamannafundi í Vestur Virginíu í gær að hún yrði sterkar frambjóðandi en Obama þar sem hún laði að kjósendur sem Demókrataflokkurinn hafi ekki getað treyst á til þessa.

Clinton sætir nú miklum þrýstingi frá ákveðnum hópi áhrifamanna innan Demókrataflokksins um að draga sig í hlé eftir að hún vann mun naumari sigur á keppinaut sínum Barack Obama í Indiana í gær en spáð hafði verið. Þá beið hún mun stærri ósigur í Norður Karólínu en skoðanakannanir höfðu sagt fyrir um. 

Samstarfsmenn Clinton greindu frá því í gær að hún hefði lánað kosningasjóði sínum 6,4 milljónir dollara frá því um miðjan apríl en áður hafði hún á lánað sjóðnum fimm milljónir dollara.

Howard Wolfson, talsmaður framboðsins, segir hana hafa gert þetta til að geta haldið í við Obama í útgjöldum en fjárframlög í kosningasjóð hans hafa slegið hvert metið af öðru að undanförnu. „Þetta er merki þess hversu mikið hún leggur upp úr þessari baráttu og því að tryggja að raddir stuðningsmanna hennar fái að heyrast," sagði Wolfson.

Hillary Rodham Clinton í hópi stuðningsmanna sinna.
Hillary Rodham Clinton í hópi stuðningsmanna sinna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina