Enn einn þingmaður krafinn um svör

Bill Cash.
Bill Cash.

Bill Cash, þingmaður breska Íhaldsflokksins, segist ekki ætla að draga sig í hlé þrátt fyrir að komið hafi í ljós að hann hafi krafið ríkið um leigukostnað vegna íbúðar dóttur sinnar. David Cameron, formaður flokksins, hefur sagt að Cash þurfi að svara alvarlegum spurningum vagna málsins. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Cash krafði ríkið um rúmlega 15.000 sterlingspund í leigukostnað vegna íbúðarinnar á árunum 2004 og 2005 á grundvelli reglna um kostnaðargreiðslur vegna heimilishalds þingmanna utan lögheimilis þeirra. Sjálfur á Cash í búð í nágrenni breska þinghússins en hann segist ekki hafa búið þar á umræddum tíma þar sem sonur hans hafi dvalið þar endurgjaldslaust. 

Cash segir kröfur sínar hafa verið hófsamar og í samræmi við þær reglur sem í gildi voru á þeim tíma og að hann muni einungis endurgreiða fjárhæðina úrskurði dómari að hann hafi brotið reglur.

„Hann bjó þar og ég stóð frammi fyrir því að finna mér annan samastað. Ég leigði því af dóttur minni á sanngjörnu verði og innan þess leigusamkomulags sem þá var í gildi," segir hann. „Ég þurfti að vera í London vegna starfa minna á þinginu."

Cash segist telja að sjónarmið hans hljóti aukinn skilning þegar málið verði skoðað í heild sinni og þegar öldurnar vegna kostnaðarmálsins fari að lægja.

Bann var lagt við því að þingmenn fengju greiddan kostnað vegna leiguhúsnæðis í eigu náinna ættingja þeirra árið 2006. Þrettán breskir þingmenn hafa lýst því yfir að þeir muni ekki sækjast eftir endurkjöri í næstu kosningum eftir að kostnaðarmálið kom upp í kjölfar upplýsingaleka til dagblaðsins The Daily Telegraph.

mbl.is

Bloggað um fréttina