Fréttaskýring: Viðurkennd þjóð en ekki fullvalda

Margrét Danadrottning afhendir Josef Motzfeldt, forseta grænlenska þingsins, nýju sjálfsstjórnarlögin.
Margrét Danadrottning afhendir Josef Motzfeldt, forseta grænlenska þingsins, nýju sjálfsstjórnarlögin.

Með nýjum sjálfsstjórnarlögum, sem tóku gildi á þjóðhátíðardegi Grænlendinga 21. júní sl., öðluðust Grænlendingar sjálfsákvörðunarrétt um að verða fullvalda ríki þegar, og ef, þeir svo kjósa. Guðmundur Alfreðsson, prófessor í þjóðarétti við Háskólann á Akureyri og Háskólann í Strassborg, var einn af fulltrúum Grænlands í nefndinni sem samdi nýju lögin. Hann segir lögin ekki ganga eins langt og sambandslögin um fullveldi Íslands árið 1918. Á þessu stigi sé um að ræða verulega útvíkkun á heimastjórninni. Guðmundur leggur áherslu á að með þeim orðum dragi hann ekki úr mikilvægi laganna og samkomulagsins að baki þeim. „Grænlendingar hafa fengið viðurkenningu á réttinum til að stofna fullvalda og sjálfstætt ríki en fullvalda verða þeir þó ekki fyrr en þeir ákveða að stíga það skref.“

Sjálfsstjórn en ekki fullveldi

Sigurður Líndal lagaprófessor segir helsta muninn á sambandslögunum frá 1918 og grænlensku sjálfsstjórnarlögunum felast í því að þjóðþing Dana hafi sett sjálfsstjórnarlög Grænlendinga en dansk- íslensku sambandslögin verið bæði lög og milliríkjasamningur. Grænlensku lögin voru staðfest af drottningu og forsætisráðherra Dana meðundirritaði þau. Sambandslögin 1918 voru hinsvegar meðundirrituð af forsætisráðherra Íslands. Sigurður segir sjálfsstjórnarlög Grænlendinga vera rýmri en stjórnarskrárbreytinguna árið 1904 sem færði heimastjórnina til Íslands, en ganga mun skemur en sambandslögin 1918. Þar var tekið fram að Ísland væri fullvalda ríki en Grænlendingar eru viðurkenndir sem þjóð með sjálfsstjórn. Aftur á móti er gildistími grænlensku sjálfsstjórnarlaganna ekki festur eins og í sambandslögunum sem giltu í 25 ár.

Slæmt ástand orðum aukið

Skýringin á því af hverju lögin ganga ekki lengra er að hluta til komin af tregðu Dana við að sleppa alveg hendinni af Grænlandi. Þá er það staðreynd að Grænlendingar eru enn háðir dönskum fjárframlögum. Það voru Íslendingar aftur á móti ekki 1918.

Grænlendingar fá með nýju lögunum yfirráðarétt yfir öllum sínum náttúruauðlindum og taka yfir fjölmarga nýja málaflokka, s.s dómsmál, lögreglu- og fangelsismál. Grænlenska verður opinbert tungumál landsins. Þeir fara aftur á móti ekki með utanríkis-, varnar-, og gjaldmiðilsmál og hæstiréttur Danmerkur er enn æðsta dómsvald Grænlendinga.

Guðmundur Alfreðsson segist búast við að Grænlendingar muni eftir fimm til fimmtán ár lýsa yfir sjálfstæði. Hann telur fregnir af slæmu ástandi á Grænlandi stórlega orðum auknar. „Menntun og velmegun þar fer vaxandi. Fjárframlag Dana hefur hlutfallslega lækkað mikið miðað við þjóðarframleiðslu og fjárlög heimastjórnarinnar á síðustu árum. Grænlendingar eru ekki eins háðir þeim og þeir voru.“

Frá nýlendu til fullveldis

GRÆNLAND var hluti af norsku krúnunýlendunum til 1814 þegar það varð formlega dönsk nýlenda. Nýlendutíminn leið undir lok árið 1953 þegar stjórnarskrá Danmerkur var breytt og Grænland var gert að hluta af danska ríkinu sem „amt“ . Eftir þjóðaratkvæðagreiðslu 1978 fékk Grænland heimastjórn með eigin þingi og ríkisstjórn sem tók við 1. maí 1979. Þann 25. nóvember 2008 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Grænlandi um aukna sjálfstjórn landsins. Tæplega áttatíu prósent þjóðarinnar töldu kominn tíma á það og sl. sunnudag tóku sjálfstjórnarlögin gildi.

Þjóðhöfðingi Grænlands er Margrét II, Danadrottning og verður það þar til, og ef, Grænlendingar lýsa yfir sjálfstæði. Samkvæmt 21. grein laganna sem fjallar um sjálfstæðisréttinn, þá geta Grænlendingar þess vegna ákveðið á morgun, ef vilji er til, að lýsa yfir fullvalda ríki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert