Öryggislögreglan kannaði bakgrunn Breiviks

Anders Behring Breivik í lögreglubíl í dag.
Anders Behring Breivik í lögreglubíl í dag. Reuters

Norska öryggislögreglan, PST, staðfesti í dag, að nafn Anders Behrings Breiviks, sem játað hefur á sig fjöldamorðin á föstudag, var á lista yfir Norðmenn sem höfðu keypt vörur hjá pólskri netverslun, sem m.a. selur kemísk efni.

Lögreglan kannaði þá bakgrunn Breiviks en taldi ekki ástæðu til að rannsaka málið nánar.  

Talsmaður PST segir, að nafn Breiviks hafi í mars sl. verið á lista yfir 80 einstaklinga, sem höfðu flutt inn tollskyldar vörur. Þar kom fram að Breivik keypti vörur af pólska fyrirtækinu fyrir 120 norskar krónur, um 2400 íslenskar krónur. Fyrirtækið hafði komist á „ratsjá" lögreglunnar vegna þess að það seldi m.a. kemísk efni.

Þá hefur norska ríkisútvarpið, NRK, eftir manni sem býr nálægt bóndabýlinu sem Breivik leigði, að hann hafi nokkrum sinnum íhugað að láta lögreglu vita að ábúandinn þar hagaði sér einkennilega.

Honum þótti einkum grunsamlegt, að jafnan var dregið fyrir glugga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert