Keyptu kynlífsþjónustu af unglingsstúlkum

Howard Shaw er meðal þeirra karla sem ákærðir hafa verið …
Howard Shaw er meðal þeirra karla sem ákærðir hafa verið fyrir vændiskaup af ólögráða stúlku. AFP

Opinberir starfsmenn, viðskipta- og stjórnmálamenn í Singapúr hafa verið ákærðir fyrir að kaupa vændi af ólögráða stúlku. Vændi er löglegt í Singapúr en ekki er löglegt að kaupa það af fólki undir lögaldri. Singapúr hefur það orð á sér að vera mjög íhaldssamt og siðvant samfélag en kynlífsiðnaðurinn blómstrar þar í landi og hefur gert allar götur frá því landið var ein aðal höfn breska heimsveldisins í Asíu.

48 menn hafa verið ákærðir fyrir vændiskaupin. Umræðan í landinu snýst nú um að setja höft á kynlífsiðnaðinn í stað þess að koma í veg fyrir tilvist hans.

Skólastjóri í grunnskóla var sá fyrsti sem ákærður var fyrir að kaupa vændi af ólögráða stúlku. Hann hefur nú verið dæmdur í níu vikna fangelsi fyrir brotið.

Meðal þeirra sem ákærðir hafa verið eru starfsmenn stórfyrirtækja sem eru með höfuðstöðvar eða útibú í landinu, m.a. einn starfsmaður UBS bankans. Sá maður er svissneskur.

Hneykslið komst hins vegar ekki í hámæli fyrr en Howard Shaw, sem er afabarn Rumne Shaw sem stofnaði kvikmynda- og fjölmiðlaveldið Shaw-stofnunina, var ákærður. Howard Shaw er 41 árs fjölskyldmaður en hann keypti vændi af táningsstúlku, rétt áður en hann giftist þekktri fegurðardrottningu.

Samfélagsmiðlar í Singapúr loga þessa dagana og margir telja að mun fleiri karlar verði ákærðir vegna vændiskaupa.

Það sem einnig vekur athygli er hvernig yfirvöld í landinu hafa tekið á málinu. Talsmaður innanríkisráðuneytisins hefur m.a. sagt að ekki sé mögulegt að loka vændishúsum sem þrífast vel víða um landið, sérstaklega í ákveðnum hverfum borganna. Segir talsmaðurinn að slíkt myndi bara auka skipulagða glæpastarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert