Grunuð um aðild að láti fimm barna

Lögregla í Englandi hefur handtekið 28 ára konu og 38 ára karlmann vegna gruns um aðild að láti fimm barna sem brunnu inni í húsi á Derby-skíri í Bretlandi í nótt. Ekki hefur verið gefið út hvernig þau tengjast eldsvoðanum.

Börnin sem voru á aldrinum fimm til tíu ára voru öll sofandi á efri hæð hússins er eldurinn braust út. Tveir fullorðnir og 13 ára unglingur voru flutt á sjúkrahús og gert að sárum þeirra þar.

Búið er að nafngreina föður barnanna sem er 57 ára og heitir Mick Philpott. Hann er 17 barna faðir sem komst í kastljós fjölmiðla árið 2007 þegar hann kom fram í heimildarmynd um lífið á framfærslu sveitarfélaga. Þá krafðist hann þess að yfirvöld gæfu honum stærra hús fyrir eiginkonu sína, unnustu og átta börn sín.

Philpott reyndi hetjulega að bjarga börnunum en án árangurs.

Þó svo fólk sé í haldi lögreglu hefur ekkert verið gefið upp um upptök eldsins. Lögregla segir að öllum möguleikum verði haldið opnum í rannsókninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina