Máli Strauss-Kahn að ljúka

Dominique Strauss-Kahn og Nafissatou Diallo
Dominique Strauss-Kahn og Nafissatou Diallo AFP

Lögmenn Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, munu mæta fyrir rétt í dag þar sem væntanlega verður gengið frá samkomulagi við þernuna Nafissatou Diallo, sem sakaði hann um kynferðislega árás.

Málið verður tekið fyrir í Bronx síðar í dag en Diallo höfðaði einkamál gegn Strauss-Kahn eftir að hætt var við að opinbert mál gegn honum af hálfu saksóknara í New York.

Diallo ætlar sjálf að mæta í réttarsalinn en ekki er búist við því að Strauss-Kahn geri slíkt hið sama. Ef gengið verður frá samkomulagi um að Strauss-Kahn greiði Diallo bætur er ljóst að hann verður laus allra mála varðandi meinta árás á hóteli í New York í maí 2011. Málið vakti gríðarlega athygli á sínum tíma og varð Strauss-Kahn að segja af sér hjá AGS í kjölfarið og forsetadraumar hans urðu að engu í Frakklandi.

Í síðustu viku greindi Le Monde frá því að Diallo fengi greiddar 6 milljónir Bandaríkjadala, 760 milljónir króna frá Strauss-Kahn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert