Telur Monti of hallan undir Þýskaland

Berlusconi er ósáttur við tengsl Mario Monti við Þýskaland. Hér …
Berlusconi er ósáttur við tengsl Mario Monti við Þýskaland. Hér sést hann ræða við Angelu Merkel, kanslara og François Hollande AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, segir að forsætisráðherra landsins, Mario Monti, sé allt of hallur undir Þjóðverja og staða efnahagsmála hafi farið niður á við frá því hann sjálfur lét af embætti og Monti tók við.

Berlusconi lét þessi orð falla í viðtali við Canale 5-sjónvarpsstöðina sem er einmitt í hans eigu. Berlusconi, sem er 76 ára að aldri, tilkynnti nýverið að hann ætlaði að bjóða sig fram á ný og er þetta sjötta kosningaherferð hans á tuttugu ára tímabili.

Álagið á ítölsk skuldabréf hefur hækkað mikið eftir að flokkur Berlusconis tilkynnti að hann styddi ekki lengur ríkisstjórn landsins og Monti tilkynnti að hann myndi segja af sér.

Monti hefur ekki gefið upp hvort hann muni gefa kost á sér í þingkosningum. Í viðtali við ítalska sjónvarpið, Rai Uno, sagði hann að stjórnvöld yrðu að fylgjast grannt með þróuninni á skuldabréfamarkaði. Hann varar við því að lýðskrum taki völdin í kosningabaráttunni. Það sé þekkt að ýmsar galdralausnir taki völdin í kosningabaráttu en því miður er það ekki raunin þegar kemur að ríkisrekstri.

mbl.is