Tók mörg leyndarmál með í gröfina

Jorge Rafael Videla í Buenos Aires meðan herforingjastjórnin fór enn …
Jorge Rafael Videla í Buenos Aires meðan herforingjastjórnin fór enn með völdin. STR

Jose Miguel Vivanco, framkvæmdastjóri Suður-Ameríkudeildar mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, segir að Jose Videla hafi allt til endaloka neitað að axla nokkra ábyrgð á þeim voðaverkum sem hann stóð fyrir í Argentínu.

„Hann mun taka mörg leyndarmál harðstjórnarinnar með sér í gröfina,“ hefur BBC eftir Vivanco.

Líkt og fram kom á mbl.is fyrr dag lést Jorge Rafael Videla, fyrrverandi leiðtogi herforingjastjórnarinnar í Argentínu, í dag í fangelsi, 87 ára að aldri. Videla var handtekinn árið 1998 og dæmdur árið 2010 í lífstíðarfangelsi fyrir glæpi gegn mannkyni í „skítuga stríðinu“ svokallaða.

Á vef BBC segir að Videla hafi dáið af náttúrulegum orsökum.

Hann var æðsti maður herforingjastjórnarinnar sem fór með völdin í landinu á árunum eftir að ríkisstjórn Isabellu Peron var steypt af stóli 1976 og fram til ársins 1981. Undir harðstjórn hans voru allt að 30.000 Argentínumenn pyntaðir og drepnir og hefur tímabilið verið kallað „skítuga stríðið“ í Argentínu.

Videla var upphaflega dæmdur árið 1985 í lífstíðarfangelsi fyrir pyntingar, morð og aðra glæpi en náðaður árið 1990. Átta árum síðar var hann handtekinn á ný og loks dæmdur fyrir að myrða 31 stjórnarandstæðing.

Mennirnir voru flestir teknir af lífi stuttu eftir að herinn tók völdin. Á sínum tíma gaf herinn þá skýringu að þeir hefðu verið skotnir á flótta úr fangelsi en sú var ekki raunin.

Árið 2012 var Videla dæmdur á ný, fyrir að standa fyrir kerfisbundnum barnaránum. A.m.k 400 börn pólitískra fanga voru numin á brott og gefin fjölskyldum hermanna og lögreglumanna. Um 100 þessara barna hafa fundið líffræðilega foreldra sína og skyldmenni aftur. Fyrir barnaránin var Videla dæmdur í 50 ára fangelsi ofan á lífstíðardóminn.

Ljóst er af viðbrögðum við fregninni af dauða hans að fáir munu sakna Videla.

Jose Miguel Vivanco, framkvæmdastjóri Suður-Ameríkudeildar mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, segir að Videla hafi allt til endaloka neitað að axla nokkra ábyrgð á þeim voðaverkum sem hann stóð fyrir í Argentínu.

„Hann mun taka mörg leyndarmál harðstjórnarinnar með sér í gröfina,“ hefur BBC eftir Vivanco. 

Fyrrverandi einræðisherra látinn

Jorge Rafael Videla í dómssal 2012 þegar hann var dæmdur …
Jorge Rafael Videla í dómssal 2012 þegar hann var dæmdur fyrir að skipuleggja mörghundruð barnarán. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert