Gríðarhörð átök í Homs

Margar borgir Sýrlands eru rústir einar eftir átökin.
Margar borgir Sýrlands eru rústir einar eftir átökin. AFP

Árásir stjórnarhersins í Sýrlandi á borgina Homs, þriðju stærstu borg landsins, héldu áfram í dag þegar hersveitir létu sprengjum rigna yfir nokkur hverfi borgarinnar. Þá taka einnig flugsveitir Sýrlandsstjórnar þátt í aðgerðinni.

„Orrustuþotur hafa gert tvær samfelldar árásir á hverfi í borginni Homs. Hersveitir hafa einnig skotið á borgina úr sprengjuvörpum,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir mannréttindasamtökum í Sýrlandi.  

Samkvæmt AFP-fréttaveitunni er harðast barist í hverfunum Khaldiyeh, Bab Hud, Hamidiyeh og Bustan al-Diwan. Átökin eru sögð gríðarhörð.

Mannréttindasamtök segja stjórnarherinn notast við sprengjuvörpur, eldflaugaskotpalla, skriðdreka og stórskotalið auk almennra hersveita og flughersveita. Stjórnarherinn er sagður vera að reyna að brjóta sér leið inn í Khaldiyeh-hverfið í von um að komast þannig inn í borgina.

Engar fregnir hafa borist af mannfalli.

Síðastliðinn fimmtudag tókst hersveitum Sýrlandsstjórnar að ná yfirhöndinni í bænum Al-Qariatayn en bærinn er í Homs-héraði. Talið er að hersveitirnar freisti þess nú að einangra suðurhluta héraðsins Hama frá norðurhluta héraðsins Homs til þess að koma í veg fyrir að vistir og hergögn endi í höndum uppreisnarmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert