Fordæma kaldrifjað morð á barni

Ættingjar með lík Ali Saad Dawabsha en hann var átján …
Ættingjar með lík Ali Saad Dawabsha en hann var átján mánaða þegar hann var myrtur af landnemum á Vesturbakkanum. AFP

Evrópusambandið hvetur ísraelsk yfirvöld til þess að taka af fullri hörku á árásum landnema á Palestínumenn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESB í kjölfar íkveikju sem kostaði átján mánaða gamlan dreng lífið í nótt á Vesturbakkanum.

 Federica Mogeherini, sem er talsmaður utanríkismála hjá ESB segir að stjórnvöld í Ísrael eigi að grípa strax til aðgerða og vernda íbúa á svæðinu. „Kaldrifjað morð á palestínska drengnum Ali Dawabsha, sennilega framið af öfgafullum landnemum... varpar kastljósinu að nauðsyn þess að lausn finnist á átökum milli Palestínu og Ísrael,“ segir í tilkynningu frá ESB.

Árásin hefur vakið mikla reiði og úlfúð meðal íbúa á Vesturbakkanum en forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur fordæmt hana og segir þetta hryðjuverk. Einungis tveir dagar eru síðan Netanyahu samþykkti byggingu 300 húsa landtökumanna úr hópi gyðinga. ESB hefur gagnrýnt harðlega þessar nýbyggingar gyðinga og þykir framganga stjórnvalda í Ísrael benda til þess að þar sé lítill áhugi á að koma á friði milli ríkjanna tveggja.

Kveikt var í húsi fjölskyldunnar í þorpinu Duma í nótt. Foreldrar hans og eldri bróðir eru með alvarleg brunasár og er móður hans vart hugað líf.

Skammt frá heimili fjölskyldunnar höfðu ódæðismennirnir skrifað hefnd á hebresku en reynt var að brenna inni fleiri palestínskar fjölskyldur í þorpinu.

Fleiri áletranir var að finna á húsveggjum í nágrenni heimilis …
Fleiri áletranir var að finna á húsveggjum í nágrenni heimilis fjölskyldunnar eins og þessa: Lengi lifi messías konungur. AFP
AFP
Hefnd
Hefnd AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina