Skrá sig á fölskum forsendum

Jeremy Corbyn er talinn líklegastur til þess að verða næsti …
Jeremy Corbyn er talinn líklegastur til þess að verða næsti leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Óttast er að um 110.000 manns hafi skráð sig í Verkamannaflokkinn á fölskum forsendum að því er kemur fram í máli Harriett Harman starfandi formanns, sem sér um framkvæmd leiðtogakosninga flokksins, en mikil umræða hefur spunnist um það í Bretlandi að íhaldsmenn skrái sig í Verkamannaflokkinn til þess að kjósa Jeremy Corbyn því þeir telja ólíklegt að með hann í fararbroddi muni Verkamannaflokkurinn sigra kosningar í Bretlandi. Þetta kemur fram í frétt á vef The Telegraph. Nú þegar hefur um það bil 3.000 manns hefur verið vikið af kjörskrá Verkamannaflokksins vegna þess að „Þeir deila ekki gildum og markmiðum Verkamannaflokksins eða eru meðlimir í öðrum flokki.“ 

Fyrr í dag sagði Jeremy Corbyn, sá frambjóðandi sem mælst hefur með langmest fylgi í leiðtogakjörinu, í samtali við BBC að ótti um að fjöldi íhaldsmanna hafi skráð sig í Verkamannaflokkinn sé vitleysa og kallaði eftir því að þeim sem bannað hefði verið að kjósa fengju leyfi til þess að áfrýja þeirri ákvörðun. Sagði hann að það hefðu aðeins verið nokkrir þingmenn Íhaldsflokksins sem hefðu reynt að skrá sig í flokkinn og að þeim hefði verið hafnað um inngöngu.

Ótrúleg aukning hefur verið á kjörskrá Verkamannaflokksins í aðdraganda kosninganna en upphaflega voru um 200.000 á kjörskránni en nú eru þar skráði rúmlega 550.000 manns. Þó eins og áður sagði gæti sú tala lækkað umtalsvert eða um 110.000.

Margir framámenn í Verkamannaflokknum hafa sagt að ómögulegt verði fyrir flokkinn að komast í ríkisstjórn verði Corbyn kosinn formaður. Íhaldsmenn eru jafnframt sagðir deila þeirri skoðun og óttast er að margir þeirra hafi skráð sig í Verkamannaflokkinn til þess að kjósa Corbyn sem er sá frambjóðandi sem er lengst til vinstri. Meðal annars hefur Corbyn sagt að margt megi læra af Karli Marx. Sjá frétt mbl.is: „Við getum lært margt af Karli Marx“

Meðal annars hafði Andy Burnham, einn mótframbjóðenda Corbyn, óskað eftir einhverskonar fullvissu um að á kjörskránni væru ekki íhaldsmenn í stórum stíl. Af því tilefni var efnt til fundar frambjóðenda og Harriet Harman til þess að ræða hvað skildi gera til þess að takast á við nýskráningarvandann svokallaðan. Annar frambjóðandi Yvette Cooper viðurkenndi nú á dögunum að þreif­ing­ar hefðu átt sér stað að tjalda­baki sem miðuðu að því að fá mót­fram­bjóðend­ur Jeremy Cor­byn til að draga fram­boð sín til baka, í þeim til­gangi að ógilda leiðtoga­kjörið. Eru þær þreifingar sagðar vera hugarfóstur Peter Mandelson en hann var ráðherra í ríkisstjórnum Tony Blair og Gordon Brown. Sjá frétt mbl.is: Sundr­ung eykst inn­an Verka­manna­flokks­ins

Einir helstu gagnrýnendur Corbyn hafa verið þungavigtarmenn innan Verkamannaflokksins sem komu flokknum í ríkisstjórn árið 1997 eftir átján ára setu í stjórnarandstöðu í tíð járnfrúarinnar Margaret Thatcher og eftirmanns hennar John Major. Eru þetta nöfn á borð við Tony Blair, Gordon Brown, David Miliband, Alastair Campbell auk Peter Mandelson. Þeir voru helstu hugmyndafræðingar hins svokallaða „Nýja Verkamannaflokks“ sem miðaði að því að færa Verkamannaflokkinn lengra inn á miðjuna. Fyrir tíma „Nýja Verkamannaflokksins“ var það meðal annars í stefnuskrá flokksins að þjóðnýta mestan hluta atvinnulífsins. Hafa þeir lýst því yfir að hljóti Corbyn brautargengi sem nýr formaður verði það afturhvarf til gamalla tíma, að flokkurinn færist töluvert lengra til vinstri en verið hefur undanfarna tvo áratugi og muni ekki komast aftur í ríkisstjórn í bráð.

Harriet Harman, starfandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins.
Harriet Harman, starfandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert