Réðust á bandamenn Bandaríkjanna

Mynd frá rússneska varnarmálaráðuneytinu sem á að sýna loftárás herþotna …
Mynd frá rússneska varnarmálaráðuneytinu sem á að sýna loftárás herþotna á skotmark í Sýrlandi. AFP

Rússneskar herþotur vörpuðu sprengjum á æfingabúðir hóps uppreisnarmanna sem Bandaríkjamenn hafa stutt í Idlib-héraði í norðvesturhluta Sýrlands, að sögn talsmanns hópsins. Tyrknesk stjórnvöld hafa lýst yfir áhyggjum af því að loftárásir Rússa hafi beinst að óvinum Ríkis íslams og óbreyttum borgurum.

Talsmaður uppreisnarmannanna í Suqur al-Jabal, sem útleggst sem Fjallafálkarnir á íslensku, segir við AFP-fréttastofuna að fjórar rússneskar herþotur hafi skotið tíu eldflaugum á æfingabúðir þeirra í morgun. Tvær þotur til viðbótar hafi ráðist á búðirnar um hádegið en enginn uppreisnarmaður hafi fallið. Hópurinn hefur fengið stuðning frá bandarískum stjórnvöldum í baráttunni gegn Ríki íslams í Sýrlandi.

Rússar hófu loftárásir í Sýrlandi í gær að beiðni Bashar al-Assad, forseta landsins. Sjálfir segjast þeir vera að taka þátt í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams en ásaknir hafa komið fram um að árásirnar hafi fram að þessu beinst að andstæðingum Assad, sem er náinn bandamaður Rússa, sem berjist einnig gegn Ríkis íslams.

„Við höfum verulegar áhyggjur af upplýsingum um að loftárásir Rússlands í Sýrlandi hafi beinst að svæðum andspyrnunnar frekar en Ríki íslams og að óbreyttir borgarar hafi fallið sem afleiðing af því,“ sagði Feridun Sinirlioglu, utanríkisráðherra Tyrklands í dag.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur hafnað fullyrðingum um að óbreyttir borgarar hafi fallið í loftárásum flughersins. Þær séu hluti af „upplýsingastríði“. Rússnesk stjórnvöld hafa haldið því fram að loftárásir þeirra hafi beinst að Ríki íslams.

mbl.is

Bloggað um fréttina