Trump fékk „lítið lán“ hjá pabba

Donald Trump fæddist með silfurskeið í munni.
Donald Trump fæddist með silfurskeið í munni. AFP

Donald Trump segir að leiðin á toppinn í viðskiptaheiminum hafi ekki verið einföld. Hann hafi m.a. þurft að reiða sig á „lítið lán“ frá föður sínum í upphafi, lán upp á „litlar“ 120 milljónir króna, eina milljón Bandaríkjadala.

„Ég barðist í gegnum lífið,“ sagði forsetaframbjóðandinn Trump á fundi í gær. „Þetta hefur ekki verið létt fyrir mig. Og veistu, ég byrjaði í Brooklyn, faðir minn lét mig fá lítið lán upp á eina milljón dollara.“

Trump var spurður frekar út í lánið og viðurkenndi að það hljómaði sem einföld lausn að fá lán hjá pabba sínum en bætti við: „Ein milljón dala er ekki mikið í samanburði við það sem ég hef byggt upp.“

Faðir hans var í fasteignaviðskiptum á sínum tíma. Trump hóf feril sinn í sama geira. Hann er að flestum talinn duglegur viðskiptamaður en því má ekki gleyma, segir í frétt CNN um málið, að hann fæddist inn í auðuga fjölskyldu og erfði svo hluta af viðskiptaveldi föður síns. 

Frétt CNN.

mbl.is