Anonymous gegn Donald Trump

Hakkarahópurinn Anonymous hefur nú beint spjótum sínum gegn forsetaframbjóðandanum og auðkýfingnum Donald Trump en vefsíða skýjakljúfurs hans í New York í Bandaríkjunum hefur orðið fyrir barðinu á þeim.

Fram kemur á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN að vísbendingar séu um að Anonymous hafi reynt að ráðast á vefsíðuna síðan á miðvikudaginn í það minnsta. Þá birti hópurinn myndband á YouTube þar sem varað var við áformum Trump um að hindra múslima í að flytjast til Bandaríkjanna.

„Þessi stefna mun hafa gríðarleg áhrif,“ segir fulltrúi Anonymous í myndbandinu og bætir við að þetta sé það sem hryðjuverkasamtökin Ríki íslams vilji. Eftir því sem meiri óánægja sé á meðal múslima því meiri möguleika telji samtökin sig hafa á að fá þá í sínar raðir. „Þú hefur verið varaður við, hr. Donald Trump.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert