5 atriði úr viðtali Penn við Guzman

Sean Penn birti mynd af sér að taka í hönd …
Sean Penn birti mynd af sér að taka í hönd Guzmans til að sanna að þeir hefðu hist og átt samtal.

Sean Penn tók á laun viðtal við glæpaforingjann Joaquín „El Chapo“ Guzman fyrir tímaritið Rolling Stone á meðan hann var á flótta undan réttvísinni. Viðtalið var birt í gær en á föstudag var Guzman loks gómaður, sex mánuðum eftir að hann flúði úr fangelsi í gegnum göng.

AP-fréttastofan segir að viðtalið við Penn hafi verið það sem kom lögreglunni á sporið. En hvað kom eiginlega fram í þessu viðtali sem skiptir máli?

Hér eru þau fimm atriði sem tímaritið Time tók saman og þykir einna merkilegast í hinu alræmda viðtali:

1. Guzman lítur ekki á sjálfan sig sem ofbeldishneigðan mann og segist aðeins beita valdi þegar hann hreinlega verði að gera það. „Sjáðu til, allt sem ég geri er að verja sjálfan mig, ekkert meira. En kem ég vandræðum af stað? Aldrei,“ sagði hann við Penn. Er hann var beðinn að skilgreina sjálfan sig sagðist hann vera „maður sem væri ekki að leita að vandræðum á nokkurn hátt“.

2. Guzman varð að samþykkja greinina, áður en hún var birt í Rolling Stone að því er fram kemur í athugasemd ritstjórans. Greinin var birt á vef tímaritsins í gær, laugardag.

3. Guzman hefur verið mjög hamingjusamur eftir að hann strauk úr Altiplano-öryggisfangelsinu í júlí. Hann segist í viðtalinu hafa lifað „hamingjuríku lífi vegna frelsisins“.

4. Guzman segist ekki hafa neytt eiturlyfja í tuttugu ár. Hann segist hafa notað þau fyrir mörgum árum en hafi aldrei orðið háður þeim. Guzman er einn umfangsmesti eiturlyfjabarón heimsins í dag og síðustu ár og jafnvel áratugi.

5. Guzman er mjög náinn fjölskyldu sinni. Hann segist gjarnan vilja eyða ævi sinni með fjölskyldunni. „Ég vil vera með fjölskyldunni þá daga sem Guð gefur mér,“ sagði hann spurður um drauma sína og vonir. Hann segist eiga í „fullkomnu“ sambandi við móður sína og segist hafa haft áhyggjur af því að með því að strjúka væri hann að stofna lífi hennar og annarra í fjölskyldunni í hættu. 

Viðtal Penn við Guzman í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert