Var Penn undir eftirliti yfirvalda?

Kona les dagblaðið La Jornada, þar sem sagt er frá …
Kona les dagblaðið La Jornada, þar sem sagt er frá fundi Penn og El Chapo. AFP

Það mun mögulega taka langan tíma að fá eiturlyfjabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman framseldan til Bandaríkjanna, ekki síst ef lögmönnum hans tekst að tefja ferlið eins og þeir hafa hótað. Þetta segja sérfræðingar í samtali við AFP.

Yfirvöld í Mexíkó hafa sagt að þau vilji ná tali af leikaranum Sean Penn og leikkonunni Kate del Castillo vegna fundar Penn með El Chapo. Myndir sem dagblaðið El Universal birti í dag virðast þó benda til þess að leikararnir hafi verið undir eftirliti fyrir fundinn, en þær voru fengnar úr skýrslu mexíkóskra öryggisyfirvalda og sýna del Castillo og mann sem líkist Penn á flugvelli í Guadalajara 2. október sl.

Viðtal Penn við Guzman birtist í Rolling Stone en þar segir leikarinn m.a. að honum hefði borist ábending um að fíkniefnalögregla landsins hefði fengið veður af fundinum.

Yfirvöld segja að hittingur Penn og El Chapo hafi gert þeim kleift að komast á slóð eiturlyfjabarónsins, sem slapp naumlega í aðgerðum hersins 6. október, fjórum dögum eftir að hann ræddi við Penn.

Lögspekingar efast um að Penn eigi yfir höfði sér ákærur vegna málsins, hvorki í Mexíkó né Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert