Ráða ekki við skrímslið sem þeir fóðruðu

Donald Trump hefur verið sakaður um rasisma gegn innflytjendum og ...
Donald Trump hefur verið sakaður um rasisma gegn innflytjendum og blökkumönnum og að æsa til ofbeldis í kosningabaráttu sinni. AFP

Forysta Repúblikanaflokksins sýpur nú seyðið af því að hafa æst upp og neitað að tóna niður öfgafullar raddir grasrótar sinnar sem hefur fylkt sér að baki Donald Trump. Íslenskir stjórnmálaskýrendur segja Trump rökrétta afleiðingu Teboðshreyfingarinnar en báðir flokkar hafi fært sig nær jaðrinum.

Þegar auðjöfurinn skrautlegi bauð sig fyrst fram í forvali Repúblikanaflokksins töldu flestir að hann yrði lítið annað en skemmtiatriði á meðan alvörugefnari frambjóðendur kepptust um útnefningu flokksins sem forsetaefni hans. Flestum að óvörum hefur raunin hins vegar orðið allt önnur og fer Trump enn með himinskautum í forkosningunum og skoðanakönnunum þrátt fyrir málflutning sem sagður er einkennast af kynþáttafordómum og hvatningu til ofbeldis.

Þó að það kunni að koma á óvart að hinn trúðslegi Trump skuli allt í einu standa með pálmann í höndunum og verði nær örugglega forsetaframbjóðandi repúblikana eru þeir til sem segja að uppgangur þeirra radda sem hann stendur fyrir sé rökrétt afleiðing þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað innan flokksins undanfarin ár.

Þeirra á meðal er Barack Obama, forseti, sem andúð stuðningsmanna Trump hefur að miklu leyti beinst að. Í ræðu á fundi landsnefndar Demókrataflokksins í Texas fyrir helgi sagði forsetinn að forysta Repúblikanaflokksins hafi lagt jarðveginn fyrir framgang Trump fyrir löngu og auðkýfingurinn sé aðeins að yrkja þá jörð.

„Það sem er að gerast í þessu forvali er bara gerjun á því sem hefur verið í gangi í flokknum þeirra í meira en áratug. Ég meina, ástæðan fyrir því að margir kjósenda þeirra svara þessu kalli er sú að þetta er það sem er búið að fóðra þá á með skilaboðum sem þeir hafa sent í langan tíma. Að þú fullyrðir hluti sem samræmast ekki staðreyndum. Að þú afneitir bara sönnunum vísindanna. Að málamiðlanir séu svik. Að andstæðingarnir hafi ekki bara rangt fyrir sér eða við séum ósammála og viljum fara aðrar leiðir heldur að andstæðingurinn sé að eyðileggja landið eða sé föðurlandssvikari,“ sagði Obama meðal annars.

Stuðningsmenn Donalds Trump í Norður-Karólínu.
Stuðningsmenn Donalds Trump í Norður-Karólínu. AFP

Normalíseruðu öfgaumræðu

Undir þetta tekur Magnús Sveinn Helgason, sagnfræðingur sem kennir bandarísk stjórnmál við Háskólann á Bifröst. Raddirnar sem Trump endurómar nú hafi heyrst innan Repúblikanaflokksins og á hægri væng bandarískra stjórnmála allt frá því á 10. áratugnum þegar útvarpsmaðurinn kjaftfori Rush Limbaugh varð að nokkurs konar málpípu grasrótar flokksins.

Upphaf hugarheims fylkingarinnar að baki Trump nú rekur Magnús Sveinn allt aftur til eftirstríðsáranna og menningarstríðanna svonefndu vestanhafs. Þá byrjaði alríkisstjórnin að knýja suðurríkin til að láta að aðskilnaðarstefnu sinni og bandarískt samfélag þróaðist í sívaxandi mæli í átt að fjölmenningu þar sem fólk af ólíku kyni, kynþáttum og kynhneigð fengu loks sína rödd í samfélagi sem áður var á forræði gagnkynhneigðra, hvítra karlmanna.

Þá fór að kræla á mótspyrnu gegn fjölmenningunni og hnignun „hefðbundinna“ fjölskyldugilda sem birtist meðal annars í andúð á innflytjendum, blökkumönnum og hjónaböndum samkynhneigðra. Þegar Teboðshreyfingin svonefnda fór að gera sig gildandi og hliðraði Repúblikanaflokknum lengra til hægri birtist þessi hugarheimur meðal annars í rasisma gagnvart Obama.

Þannig spratt upp hávær hreyfing fólks sem hélt því fram að Obama væri ekki réttborinn Bandaríkjamaður og krafðist þess að hann legði fram fæðingarvottorð sitt. Trump og Sarah Palin, varaforsetaefni flokksins árið 2008, voru áberandi talsmenn þess.

„Þegar Repúblikanaflokkurinn kynti stöðugt undir og neitaði að fordæma tal um að Obama væri ekki réttborinn Bandaríkjamaður og ætti eftir að sýna fæðingarvottorðið normalíseraði hann þessa umræðu sem hluta af pólitískri umræðu,“ segir Magnús Sveinn sem telur flokkinn bera fulla ábyrgð á að hafa ekki sett þessum röddum stólinn fyrir dyrnar.

Hópur fólks mótmælir fyrir kosningafund Trump í Norður-Karólínu.
Hópur fólks mótmælir fyrir kosningafund Trump í Norður-Karólínu. AFP

Vandamálið ekki Trump heldur orðræðan

Umræðan um fæðingarstað Obama er fjarri því eina dæmið um öfgarnar sem virðast hafa yfirtekið stóran hluta Repúblikanaflokksins. Nær allir fulltrúar flokksins afneita vísindalegri þekkingu á loftslagsbreytingum og í umræðum um heilbrigðistryggingafrumvarp Obama básúnuðu sumir þeirra framandlegum kenningum um að með því yrði komið á fót „dauðanefndum“ embættismanna sem tækju ákvarðanir um líf eða dauða bandarískra borgara.

Þannig segir Magnús Sveinn að vandamálið nú sé ekki Donald Trump heldur sú orðræða sem hann tali inn í. Trump sé ekki einu sinni sérlega öfgafullur í framsetningu skoðana sinna í samanburði við ýmsar raddir sem heyrist innan flokksins.

„Munurinn er bara sá að þessi rödd er núna opinberlega talsmaður flokksins og hún gat orðið það vegna þess að flokkurinn hefur á engum tímapunkti gert tilraun til að tóna niður þessa rödd í grasrótinni. Á einhverjum tímapunkti þegar hún er búin að venjast því að svona skuli talað og svona sé talað þá fylkist hún um mann eins og Trump sem er náttúrulega bara leikari og loddari en líkamar þessa ófreskju sem flokkurinn hefur leyft að vaxa upp,“ segir Magnús Sveinn.

Röddunum öfgafullu var leyft að grassera í Teboðshreyfingunni og telur Magnús Sveinn að Trump sé lógísk niðurstaða hennar. Hann sé aðeins að virkja þessar raddir sér til pólitísks framdráttar.

„Það sem flokkurinn er að fá í hausinn núna er að hann fóðraði þessa skepnu vegna þess að hann ímyndaði sér að hann gæti beitt henni fyrir vagn flokksins og núna vakna þeir upp við þann vonda draum að þessi skepna er búin að vaxa þeim yfir höfuð, “ segir Magnús Sveinn sem telur stóra lærdóminn af uppgangi Trump þann að hættulegt sé að næra öfgar með þessum hætti.

Stuðningsmaður Donalds Trump í Ohio með andlit frambjóðandans húðflúrað á ...
Stuðningsmaður Donalds Trump í Ohio með andlit frambjóðandans húðflúrað á upphandleginn. AFP

Gengur í báðar áttir en öfgakenndara hjá repúblikönum

Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og áhugamaður um bandarísk stjórnmál, segist taka undir greiningu Obama á ábyrgð forystu Repúblikanaflokksins á uppgangi öfgasinnaðra sjónarmiða að hluta til. Honum sýnist þó að bæði repúblikanar og demókratar hafi fikrað sig lengra í átt að jaðrinum, repúblikanar til hægri en demókratar til vinstri. Þessi þróun hafi hins vegar orðið öfgakenndari hjá repúblikönum.

Bakland Trump sé hvít milli- og lágstétt sem er óánægð með kjör sín. Tekjustöðnun þessara hópa undanfarna tvo áratugi eigi sér stað á sama tíma og ríkasta fólkið sé að verða ríkara. Ofan í þetta ástand hafi svo komið efnahagshrun en margir úr þessum hópi hafi verið búnir að veðsetja hús sín upp í topp til að geta lifað aðeins betra lífi.

Stuðningsmenn Trump er heldur ekki ekki hefðbundnir liðsmenn Repúblikanaflokksins, að sögn Friðjóns. Hann hafi laðað að fólk sem fram að þessu hefur ekki tekið þátt í stjórnmálum og afskrifað þau. Aðsókn í prófkjörum flokksins hafi því slegið öll met. Þetta fólk telji Trump segja hlutina umbúðalaust og eins og þeir eru þrátt fyrir að málflutningur hans sé rakið bull.

Kjósandi greiði atkvæði í forvali í Míamí á Flórída.
Kjósandi greiði atkvæði í forvali í Míamí á Flórída. AFP

Vel skipulagðir hópar geta hertekið forvöl

Hliðrun repúblikana í átt að jaðrinum segir Friðjón þó staðreynd. Það skýrist meðal annars af því að í raun sé aðeins keppt um lítinn hluta þingsæta á Bandaríkjaþingi þar sem víðast hvar geti flokkarnir gengið út frá sem vísum í ríkjum þar sem þeir eru sterkir fyrir. Þess vegna eigi hinn raunverulegi slagur um þingsætin sér stað í forvali flokkanna tveggja.

„Svo er þátttakan ekki sérstaklega mikil. Þannig geta vel skipulagðir hópar hertekið prófkjör. Þetta er að gerast líka demókratamegin. Þeir hafa verið að þokast meira til vinstri,“ segir Friðjón og bendir á að mun fleiri demókratar skilgreini sig nú til vinstri en fyrir nokkrum árum.

Spurður að því hvort að forysta Repúblikanaflokksins beri ábyrgð á öfgunum sem hafa magnast upp í forvali hans játar Friðjón því. Að sama skapi hafi virtir og reynslumiklir þingmenn flokksins verið felldir af þingi vegna þess að þeir tóku Teboðshreyfinguna ekki alvarlega.

„Þetta hefur verið mjög hávær hópur og það er auðveldara að friðmælast við háværa hópinn en að reyna að sannfæra hann og taka harða afstöðu,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Frá Sýrlandi til Evrópu - Greinaflokkur

Teikning eftir Mugg til sölu
Teikning eftir Mugg til sölu, úr Sjöundi dagur í paradís, blýants og tússteiknin...
Skápur og skúffueining lituð eik
Til sölu: Skápur 105x80x37cm kr 12.000 Skúffueining 72x46x43 kr 12.000 Uppl....
3 sófaborð til sölu
Til sölu 3 sófaborð úr massífum við, bæði lítil og stærri. Seljast ódýrt. Egger...
 
Framboðslisti
Fundir - mannfagnaðir
Framboðslisti Sjál...
Hádegisfundur
Fundir - mannfagnaðir
ses.xd.is Samtök eldri sjálfstæði...
Aukatekjur vikulega
Önnur störf
Aukatekjur Morgunblaðið vantar fólk ...
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristni- boðssalnum. R...