Hælisleitendur ekki sendir frá Svíþjóð

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven AFP

Ólíklegt er að sænskum yfirvöldum verði að ósk sinni um að hluta þeirra flóttamanna sem sótt hafa um hæli í landinu verði fluttur til annarra ríkja Evrópusambandsins ef marka má drög að samkomulagi sem leiðtogar ESB ríkjanna ræða á fundi sínum í dag.

Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, ritaði bréf til framkvæmdastjórnar ESB í nóvember þar sem hann óskaði eftir því að hluti hælisleitenda í landinu yrðu sendir til annarra ríkja í ESB. En miðað við þau drög sem nú liggja fyrir er ólíklegt að hælisleitendur verði fluttir á milli landa ESB sem hluti af áætlun um að draga úr fjölda flóttafólks í ríkjum sem liggja að ytri landamærum sambandsins, það er Grikklandi og Ítalíu.

Í frétt Svenska Dagbladet í dag kemur fram að Löfven hafi tjáð starfssystkinum sínum í ríkjum ESB að hugmyndir um samkomulag við Tyrki henti Svíþjóð illa. En hann muni ekki setja sig upp á móti því þar sem það mikilvægasta sé að stöðva smygl á fólki inn í Evrópu og breyta hættulegu og óskipulögðu ástandi í öruggt.

Samkomulagið miðar að því að stöðva smygl á fólki frá Tyrklandi til Grikklands og að fólk sem komi ólöglega þessa leið verði sent aftur til baka. Fyrir hvern Sýrlending sem er snúið til baka verði annar Sýrlendingur sem er í Tyrklandi boðinn velkominn til ríkja ESB með löglegum hætti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert