Grikkir samþykktu skattahækkanir

Mótmælt var fyrir utan þinghúsið í Aþenu í gær.
Mótmælt var fyrir utan þinghúsið í Aþenu í gær. AFP

Gríska þingið samþykkti í gær frekari niðurskurðaraðgerðir og skattahækkanir að kröfu lánardrottna Grikklands. Fulltrúar lánardrottnanna munu funda næst á morgun í Brussel og er talið líklegt að þeir samþykki þá að veita Grikkjum frekari neyðarlán.

Allir þingmenn stjórnarmeirihlutans, undir forystu vinstriflokksins Syriza, greiddu atkvæði með frumvarpinu, 153 talsins, en 145 kusu gegn því.

Lánardrottnarnir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópski seðlabankinn og Evrópusambandið, samþykktu í fyrra að veita Grikkjum neyðarlán að verðmæti 86 milljarða evra.

Mótmælendur söfnuðust saman fyrir framan þinghúsið í Aþenu, höfuðborg landsins, meðan á umræðum og atkvæðagreiðslu um frumvarpið umdeilda stóð.

Grísk stjórnvöld þurfa að standa skil á 3,5 milljarða evra afborgun af láni lánardrottnanna á næstu tveimur mánuðum. Þingið þar í landi samþykkti fyrr í mánuðinum umfangsmiklar breytingar á lífeyris- og skattkerfi landsins, í samræmi við kröfur lánardrottna um frekari neyðaraðstoð, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP
mbl.is