Vilja ekki Barroso til Goldman Sachs

José Manuel Barroso var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á árunum 2004–2014.
José Manuel Barroso var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á árunum 2004–2014. AFP

Stjórnvöld í Frakklandi hafa kallað eftir því að José Manuel Barroso, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hverfi frá þeirri ákvörðun sinni að ráðleggja bankarisanum Goldman Sachs í kjölfar úrsagnar Breta úr ESB.

„Herra Barroso hefur aðstoðað and-Evrópusinna. Ég biðla til hans í einlægni um að gefa starfið frá sér,“ sagði Evrópumálaráðherra Frakklands, Harlem Desir, á franska þinginu í dag.

Stjórnendur Goldman Sachs réðu Barroso til starfa sem ráðgjafa vegna þjóðaratkvæðagreiðslu Breta 23. júní sl., þar sem breska þjóðin ákvað að ganga úr Evrópusambandinu.

Ráðningin hefur verið gagnrýnd af Evrópusinnuðum stjórnmálamönnum en Barroso gegndi embætti forseta framkvæmdastjórnar ESB á árunum 2004–2014.

Ákvörðun Barroso um að starfa fyrir bankana gengur ekki í berhögg við reglur framkvæmdastjórnarinnar, en þær kveða á um að forsetinn sé ábyrgur gagnvart framkvæmdastjórninni í 18 mánuði eftir að hann lætur af embætti.

mbl.is