Lýst sem „virkilega almennilegum náunga“

Ahmad Khan Rahami var líst sem almenninglegum náunga sem þó …
Ahmad Khan Rahami var líst sem almenninglegum náunga sem þó hefði breyst nokkuð eftir heimsókn til Afganistan fyrir fjórum árum. NYPD

Nágrannar Ahmad Khan Rahami, sem lýst var eftir vegna spreng­ing­anna í New York og New Jers­ey, lýsa honum sem „virkilega almennilegum náunga.“ Rahami fannst í dag, að sögn fréttavefjar New York Times, sofandi fyrir framan bar í bænum Linden, þar sem hann var síðan handtekinn í kjölfar skotbardaga við lögreglu.

Rahami kom nágrönnum sínum fyrir sjónir sem góður drengur. Hann var oft að vinna á skyndibitastað föður síns í New Jersey  þar sem hann afgreiddi  djúpsteiktan kjúkling og gaf jafnvel bita og bita ef sérlega góður viðskiptavinur kom inn á staðinn.

Frétt mbl.is: Rahami handtekinn eftir skotbardaga

„Hann var svo almennilegur náungi. Manni hefði aldrei dottið neitt svona í hug um hann,“ hefur New York Times eftir Ryan McCann einum fastagesta veitingastaðarins.

Varð alvarlegri eftir heimsókn til Afganistan

Rahami kom með foreldrum sínum og systkinum frá  Afganistan fyrir all nokkrum árum. Lítið er hins vegar enn vitað um stjórnmálaskoðanir hans eða hvaða hugmyndafræði hann kann að hafa aðhyllst.

Fyrir fjórum árum fór hann frá New York um tíma og Flee Jones, kunningi og jafnaldri Rahami, segir einn bræðra hans hafa sagt sér að Rahami hefði farið til Afganistan.  Þegar hann kom til baka hafði viss breyting átt sér stað. Stuttermabolirnir og joggingbuxurnar sem hann klæddist áður höfðu vikið fyrir hefðbundnum múslimaklæðum og hann tók að biðjast fyrir í bakherbergi veitingastaðarins.

Frétt mbl.is: Margt á huldu um árásirnar Vestanhafs

Vingjarnlegt viðmót hans vék sömuleiðis fyrir alvarlegra yfirbragði.

„Hann var gjörbreytt manneskja,“ sagði Jones. „Hann varð alvarlegur og lokaður.“ Aðrir kunningjar tóku einnig eftir breytingunni.

Handtakan í dag ekki í fyrsta skipti sem Rahami kemst í kast við lögin. Hann var handtekinn árið 2014 og ákærður fyrir vopnaða líkamsárás og var í kjölfarið dæmdur til þriggja mánaða fangelsisvistar. Þá dvaldi hann daglangt í fangelsi 2012 fyrir að brjóta nálgunarbann og í október 2008 vegna ógreiddra stöðumælasekta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert