„Það var ekkert Plan B“

Dúfur hefja sig til flugs á Bolivar-torgi í Bógóta. Framtíðin …
Dúfur hefja sig til flugs á Bolivar-torgi í Bógóta. Framtíðin er á huldu eftir að kjósendur höfnuðu friðarsamkomulagi stjórnvalda og FARC-liða. AFP

Stjórnvöld í Kólumbíu hafa heitið því að halda áfram vinnu við að binda enda á borgarastyrjöldina í landinu eftir að kjósendur höfnuðu friðarsamkomulaginu við uppreisnarmenn FARC.

Samkomulagið var fjögur ár í smíðum en stjórnvöld höfðu ekki undirbúið sig fyrir þann möguleika að því yrði hafnað, enda bentu skoðanakannanir til hins gagnstæða og var afar mjótt á munum.

Íbúar landsins virðast hins vegar eiga erfitt með að sætta sig við skilmálana, þá ekki síst að mörgum uppreisnarmanna verður veitt sakaruppgjöf, og því fór sem fór. Niðurstaðan var 50,21% á móti, 49,78% með.

Um 54.000 atkvæði skildu fylkingarnar að.

Þegar niðurstöðurnar lágu fyrir játaði Juan Manuel Santos, forseti Kólumbíu, ósigur en hét því að leita friðar á meðan hann situr í embætti.

Leiðtogi FARC, Rodrigo Londono, betur þekktur undir nafninu Timoleon „Timochenko“ Jimenez, sagði einnig að samtökin hygðust halda friðarumleitunum áfram og að umsamið vopnahlé héldi.

„FARC harma að tortímandi afl þeirra sem sá hatri og reiði hefur haft áhrif á skoðun kólumbísku þjóðarinnar,“ sagði hann í Havana á Kúbu, þar sem gengið var frá friðarsamkomulaginu.

„Íbúar Kólumbíu sem dreymir um frið getur reitt sig á okkur. Friðurinn mun sigra.“

Andstæðingar samkomulagsins fagna niðurstöðunum.
Andstæðingar samkomulagsins fagna niðurstöðunum. AFP

Meðal annarra sem lýstu vonbrigðum með niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar var Borge Brende, utanríkisráðherra Noregs, en Noregur er eitt þeirra ríkja sem kom að friðarviðræðunum.

Brende sagði í samtali við NRK að stuðningsmenn samkomulagsins ættu að vinna að því næstu daga að komast að því hvort enn mætti tryggja frið í Kólumbíu, að teknu tilliti til andstöðunnar.

Hatur á FARC

Líkt og fyrr segir bentu skoðanakannanir til þess að kólumbíska þjóðin myndi samþykkja friðarsamkomulagið. Kosningaþátttaka var hins vegar með minna móti, aðeins 37%, m.a. vegna veðurs.

Meðal stuðningsmanna samkomulagsins voru fórnarlömb FARC en svo virðist sem þrá manna eftir að refsa uppreisnarmönnum fyrir blóðugar aðferðir sínar síðustu áratugi hafi verið vanmetin.

Ef samkomulagið hefði tekið gildi hefði sumum uppreisnarmönnum verið veitt sakaruppgjöf, þó ekki þeim sem grunaðir eru um fjöldamorð, pyntingar eða nauðganir.

„Það er fáránlegt að verðlauna þessa glæpamenn, fíkniefnasala og morðingja, sem hafa verið stórslys fyrir landið síðustu 50 ár,“ sagði Jose Gomez, 70 ára.

„Ég er fylgjandi öðru tækifæri, en ekki refsilaust,“ sagði Monica Gonzalez, 36 ára. Hún sagði að amma sín hefði verið myrt af liðsmönnum FARC árið 2011 og nokkrum ættingjum hennar rænt.

Kjörseðlarnir flokkaðir.
Kjörseðlarnir flokkaðir. AFP

Pólitísk kreppa

Alvaro Uribe, fyrrverandi forseti Kólumbíu og leiðtogi „nei“-hreyfingarinnar, kallaði eftir þjóðarsátt um friðarviðræður í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar en óvíst er  um framhaldið.

„Hatrið á FARC sigraði í kosningunum,“ sagði Jorge Restrepo, framkvæmdastjóri CERAC, stofnunar sem sérhæfir sig í átakagreiningu.

„Við erum stödd í djúpri pólitískri kreppu sem mun hafa afar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar.“

Stuðningsmenn samkomulagsins sem söfnðust saman á hóteli í Bogota voru niðurlútir.

„Enginn var undir þetta búinn. Það var ekkert „Plan B“,“ sagði Jorge Cifuentes, 55 ára. „Við vitum ekki hvað gerist núna að það er ljóst að skilmálarnir sem veittir voru FARC höfðu mikil áhrif og lítil kosningaþátttaka.“

Samkvæmt samkomulaginu áttu 5.765 liðsmenn FARC að afvopnast og mynda pólítíska hreyfingu með sæti á kólumbíska þinginu. Þá var einnig samið um skaðabætur til fórnarlamba átakanna og um endalok kókaínframleiðslu samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert