Tekur þátt í endurreisn Bataclan

Marianne Faithfull.
Marianne Faithfull. AFP

Enska listakonan Marianne Faithfull skilur alveg hvers vegna margir tónlistarmenn eru tregir til þess að koma fram í Bataclan-tónleikasalnum í París þar sem hryðjuverkamenn drápu 90 manns í nóvember í fyrra. En hún lætur það ekki stöðva sig. Faithfull mun koma fram á tónleikum í Bataclan í næsta mánuði, viku eftir að samlandi hennar, Pete Doherty, heldur fyrstu tónleikana þar eftir árásirnar 13. nóvember í fyrra.

Marianne Faithfull.
Marianne Faithfull. AFP

Faithfull, sem er 68 ára gömul, hefur lifað tímana tvenna og ber rödd hennar sem og líkami ör áralangrar misnotkunar á heróíni og áfengi. Hún hefur einnig barist við krabbamein en árið 2007 náði hún heilsu á ný eftir harðvítuga baráttu við brjóstakrabbamein.

Hún segir að það sé hins vegar ekki neinn tilgangur með því að hræðast og ólíklegt sé að önnur árás verði gerð á Bataclan. „Ef það gerist þá gerist það. Hvað getur þú gert?“ segir tónlistar- og leikkonan í samtali við AFP-fréttastofuna.

Bataclan.
Bataclan. AFP

Faitfull kemur fram á tónleikum í Bataclan 25. nóvember og vill helst tjá sig sem minnst um hvað eigi eftir að gerast það kvöld annað en að hún ætli að syngja They Come at Night, lag sem hún samdi dagana eftir að árásin var gerð á Bataclan þar sem bandaríska hljómsveitin Eagles of Death Metal hélt tónleika. 

„Ástæðan fyrir því að ég held tónleikana og að ég samdi þetta lag segir sig sjálf,“ segir Faithfull, sem býr í París, Englandi og Írlandi. Enginn hefur fengið að heyra lagið fyrir utan hljómsveit hennar og umboðsmann hennar. En Faithfull segir að þetta hafi verið það eina sem hún gat gert á þessum tímapunkti ― að semja lag. „Það voru allir í algjöru áfalli vegna alls þessa. Þetta var skelfilegt.“

Hún segir tónleikana vera í virðingarskyni við ekki aðeins þá sem létust heldur einnig þá sem særðust og fengu áfall vegna þess sem þeir gengu í gegnum. Hún efast ekki um að tónlist geti auðveldað fólki að jafna sig eftir slík áföll.

Tveimur dögum eftir tónleika Dohertys mun senegalski söngvarinn Youssou N'Dour koma þar fram ásamt hljómsveit sinni, Super Etoile de Dakar. Tónlistarmaðurinn, sem segist vera sendiherra friðar og umburðarlyndis, mun spila í Bataclan-salnum tvö kvöld í röð. 

Fólk á gangi fyrir utan Bataclan-höllina rúmri viku eftir að …
Fólk á gangi fyrir utan Bataclan-höllina rúmri viku eftir að 90 manns voru myrtir innan hennar veggja. AFP

Flest þeirra laga sem Faitfull syngur í Bataclan eru af nýútkominni plötu hennar en um er að ræða tónleikaplötu sem tekin var upp á tónleikaferðalaginu No Exit.

Marianne Faitfull, sem er sennilega þekktust fyrir plötuna Broken English, var fyrst uppgötvuð 17 ára gömul árið 1964 af umboðsmanni Rolling Stones. 

Þeir Mick Jagger og Keith Richards sömdu hennar fyrsta fræga lag As Tears Go By en hún og Jagger voru par í fjögur ár. En Marianne Faithful lenti í glímu við vímuefni og þegar sambandi þeirra Jaggers lauk fékk hann forræðið yfir syni þeirra en hún endaði sem fíkill á götum Lundúnaborgar. En árið 1979 kom hún aftur fram á sjónarsviðið með Broken English. 

Undanfarin ár hefur hún glímt við ýmis heilsufarsvandamál en hún lætur það ekki stöðva sig og vonast hún til þess að gefa út nýja plötu, sem hefur fengið nafnið Negative Capability, einn daginn en viðræður standa nú yfir um mögulegt samstarf við Nick Cave og Damon Albarn á þeirri plötu. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert