Glæpamenn af gamla skólanum

Kim Kardashian, Kourtney Kardashian og Kris Jenner.
Kim Kardashian, Kourtney Kardashian og Kris Jenner. AFP

Höfuðpaurinn á bak við ránið á skartgripum raunveruleikastjörnunnar Kim Kardashian var ákærður í París í gær. Aomar A, er sextugur að aldri og er talið að hann hafi skipulagt ránið. Fimm vopnaðir og grímuklæddir men ruddust inn í hótelíbúð stjörnunnar í París 3. október, bundu hana og lokuðu inn á baðherbergi á meðan þeir létu greipar sópa í íbúðinni. Er ránsfengurinn metinn á níu milljónir evra, um 1,1 milljarð króna.

Alls hafa tíu verið ákærðir fyrir aðild að ráninu, þar af fimm sem tóku þátt í ráninu með beinum hætti. 

Pierre B. 72 ára var handtekinn á heimili sínu í …
Pierre B. 72 ára var handtekinn á heimili sínu í þorpinu Plascassier skammt frá Grasse, 11. janúar. AFP

Heimildir AFP fréttastofunnar herma að sérsveit frönsku lögreglunnar, BRB, sem annast meðal annars rannsókn á vopnuðum ránum, hafi byrjað að fylgjast með Aomar A. eftir að lífsýni hans fannst á reipi sem notað var við að binda Kardashian. Aomar A. var dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir vopnað rán árið 1985. 

Annar ræningi var einnig nafngreindur í gær, Didier D. 61 árs og gengur undir gælunafninu Yeux bleus eða bláu augun. Hann var dæmdur árið 2003 í átta og hálfs árs fangelsi fyrir aðild að alþjóðlegum eiturlyfjasmyglhring en hann var tekinn á  Bourget flugvellinum í Seine-Saint-Denis árið 1999 með 2 tonn af kókaíni. Efninu var smyglað til landsins í einkaþotu sádiarabísks prins. Eftir að lögregla fór að fylgjast með höfuðpaurnum fóru málin fljótt að skýrast og voru 17 manns handteknir. 

Heimildir herma að hluti þeirra hafi játað aðild að ráninu en ræningjarnir sjálfir eru á aldrinum 54-72 ára og er lýst sem glæpamönnum af gamla skólanum.

Hótelíbúðin er við Rue Tronchet skammt frá Madeleine lestarstöðinni.
Hótelíbúðin er við Rue Tronchet skammt frá Madeleine lestarstöðinni. AFP

Ræningjarnir voru klæddir lögreglubúningum þegar þeir yfirbuguðu næturvörðinn á íbúðahótelinu í Madeleine-hverfinu í París. Tveir þeirra Aomar A. og sá bláeygði ruddust síðan inn í íbúðina, að því er lögreglan telur, bundu hana og lokuðu inni á baðherbergi. Meðal þess sem þeir stálu var 20 karata Lorraine  Schwartz demantshringur sem er metinn á fjórar milljónir evra. Ránið er stærsta skartgriparán Frakklands í meira en tuttugu ár. 

Elstur glæpamannanna er Pierre (Pierrot) B. 72 ára en hann var dæmdur í sex ára fangelsi á sínum tíma fyrir kókaínviðskipti. Hann var handtekinn í Suður-Frakklandi á mánudag. 

Kona höfuðpaursins, Christiane G., 70 ára, og sonur hans Harminy A. 29 ára, eru ákærð fyrir að hafa aðstoðað við ránið en Harminy er talinn hafa ekið ræningjunum á staðinn.

 Marceau B., 64 ára, er ákærður fyrir að hafa aðstoðað við að koma hluta skartgripanna í verð. Hann er með langa sakaskrá að baki eða allt aftur til ársins 1998 þegar hann var dæmdur fyrir rán og peningafölsun. Sex mánuðum eftir að hann var látinn laus árið 2011 var hann ákærður fyrir peningafölsun en sýknaður af ákæru í fyrra.

Marceau B. var handtekinn í Antwerpen í Belgíu en borgin er höfuðstaður demantaviðskipta í Evrópu. Óttast er að skartgripirnir hafi þegar verið seldir en erfitt gæti reynst að selja demantshringinn dýra þar sem hann hefur oft birst á myndum og er auðþekkjanlegur.

Sjö hafa verið látnir lausir úr haldi, þar á meðal bílstjóri Kardashian í París. Bróðir hans, Gary M. 27 ára, er hins vegar ákærður fyrir að hafa sagt ræningjunum frá því að lífvörður Kardashian væri ekki við um kvöldið. En hann var í fylgd með Kourtney Kardashian, systur Kim, á næturklúbbi í París á þeim tíma sem ránið var framið. Hann starfar ekki lengur fyrir fjölskylduna.

Ítarefni um ránið fyrir áhugasama á Le Parisien

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert