LA greiðir 1,5 milljónir dala í miskabætur

Tritobia Ford kveikir á kerti til minningar um son sinn, …
Tritobia Ford kveikir á kerti til minningar um son sinn, Ezell Ford. AFP

Borgaryfirvöld í Los Angeles hafa samþykkt að greiða foreldrum svarts manns sem var drepinn af lögreglu fyrir þremur árum 1,5 milljónir dala í miskabætur. Aðeins tvær vikur eru liðnar frá því að fallið var frá ákærum gegn lögreglumönnunum tveimur sem áttu þátt í dauða Ezell Ford í ágúst 2014.

Ford, sem var þroskaskertur, var skotinn til bana af lögreglumönnunum tveimur þegar hann var á göngu nærri heimili sínu í Los Angeles.

Að sögn lögreglumanna nálguðust þeir Ford, sem var greindur með geðklofa, af því að hann hegðaði sér sér grunsamlega. Í kjölfarið kom til ryskinga en að sögn lögreglu reyndi Ford að ná taki á skotvopni annars lögreglumannanna.

Eftirlitsnefnd innan lögreglunnar komst að þeirri niðurstöðu árið 2015 að lögreglumennirnir hefðu brotið gegn reglum þar sem þeir hefðu ekki getað gefið gilda ástæðu fyrir því hvers vegna þeir stöðvuðu Ford.

Nefndin sagði hins vegar að á sama tíma og notkun annars lögreglumannsins á skotvopni sínu hefði verið óréttlætanleg, hefði hinn gert rétt þegar hann beitti skotvopni sínu þegar til ryskinga kom milli kollega hans og Ford.

Ford var óvopnaður þegar atvikið átti sér stað en fyrir tveimur mánuðum tilkynnti borgarráð Los Angeles að það hefði samþykkt að greiða meira en 8 milljónir dala í miskabætur vegna notkunar lögreglunnar á skotvopnum gegn þremur öðrum óvopnuðum mönnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert