Myrti þau með kúbeini

Heimili Hubert Caouissin og Lydie Troadec.
Heimili Hubert Caouissin og Lydie Troadec. AFP

Hubert Caouissin, mágur Troadec-fjölskyldunnar, myrti þau með kúbeini og ástæðan var deilur um gullmynt, segir saksóknari sem stýrði rannsókn málsins. Caouissin hefur játað að hafa myrt alla fjölskylduna, foreldra og tvö börn. 

Saksóknari í Nantes, Pierre Sennes, fór yfir málið á fundi með blaðamönnum í gær. Þar kom fram að Hubert Caouissin hafi skorið líkin í bita, brennt hluta þeirra og grafið aðra.

Fjölskyldan, hjónin Pascal og Brigitte, bæði 49 ára, og börn þeirra, Sébastien og Charlotte, 21 og 18 ára, hurfu sporlaust af heimili sínu 16. febrúar og var eins og jörðin hefði gleypt þau í fyrstu. Síðan fóru að koma vísbendingar fram, svo sem lífsýni og hlutir í eigu þeirra sem vörpuðu ljósi á rannsóknina. Hubert Caouissin og eiginkona hans, Lydie, systir Pascals, voru handtekin á sunnudag og játaði hann að hafa myrt fjölskylduna á sunnudagskvöldinu. 

Caouissin sagði við yfirheyrslur að hann hafi talið að Pascal hafi haldið eftir gullmynt eftir andlát föður þeirra Lydie, en aðrir í fjölskyldunni hafi átt sama rétt á henni. Sennes segir að þetta hafi valdið miklum deilum og hatri í garð Pascal sem hafi stigmagnast undanfarinn áratug.

Hubert Caouissin verður ákærður fyrir morð en eiginkona hans verður ákærð fyrir að koma sönnunargögnum fyrir og aðstoða við glæpinn með því að aðstoða Caouissin við að farga líkunum. 

Að sögn Caouissin laumaðist hann inn í hús fjölskyldunnar í úthverfi Natnes, Orvault, að kvöldi 16. febrúar. Hann faldi sig í bílskúrnum þangað til fjölskyldan fór í háttinn en hann hafi ekki ætlað sér að drepa þau í upphafi heldur finna gullið. 

Troadec-fjölskyldan, Pascal, Brigitte, Sébastien og Charlotte.
Troadec-fjölskyldan, Pascal, Brigitte, Sébastien og Charlotte. AFP

En Pascal og Brigitte komu niður þegar þau heyrðu hávaða á jarðhæðinni. Caouissin hafði gripið kúbeinið með sér úr bílskúrnum og barði hjónin til bana með því. Að því loknu drap hann börn þeirra, Sébastiaen og Charlotte, en þau voru í heimsókn hjá foreldrum sínum í skólafríi. Það var ekki fyrr en undir morgun sem Caouissin lagði af stað heim til sín á Bretagne sem er í um 300 km fjarlægð frá Nantes. Þegar þangað var komið sagði hann Lydie að hann hefði drepið bróður hennar og aðra í fjölskyldunni.

Síðar um daginn sneri hann aftur á heimili Troadec-fjölskyldunnar og þreif allt hátt og lágt. Daginn eftir kom hann líkunum fyrir í bifreið Sébastiens og næstu tvo eða þrjá daga voru þau Caouissin og Lydie að losa sig við líkamspartana en enginn þeirra hefur fundist enn sem komið er. Síðan hreinsuðu þau blóðið í bíl Sébastiens og skildu hann eftir á bílastæði við kirkju í hafnarbænum Saint-Nazaire, sem er í um klukkustundar fjarlægð frá heimili Troadec-fjölskyldunnar.

Fjölmiðlar hafa sýnt málinu gríðarlega athygli.
Fjölmiðlar hafa sýnt málinu gríðarlega athygli. AFP

Sennes segir að starfi lögreglunnar sé hvergi nærri lokið enda eigi eftir að finna líkamshluta fjölskyldunnar auk þess sem hnýta þurfi fleiri lausa enda. 

Hvarf fjölskyldunnar hefur vakið gríðarlega athygli en í fyrstu var talið að Sébastien Troadec hafi staðið á bak við hvarfið en hann hefur glímt við geðræn vandamál og var dæmdur til samfélagsþjónustu 2013 fyrir líflátshótanir. En þegar lífsýni úr Caouissin fundust á heimili fjölskyldunnar og síðar í bifreið Sébastiens fór áhersla rannsóknarinnar að færast yfir á máginn og eiginkonu hans.

Hubert Caouissin og Lydie Troadec voru flutt í lögreglufylgd í …
Hubert Caouissin og Lydie Troadec voru flutt í lögreglufylgd í gær. AFP

Caouissin og Lydie Troadec voru yfirheyrð í tæpan sólarhring við upphaf rannsóknarinnar en þá sagði Caouissin lögreglu að hann hafi slitið samskiptum við fjölskylduna í tengslum við deilur um arf.

Í Le Parisien í dag er fjallað um Hubert Caouissin og Lydie Troadec en þau virðast hafa lifað mjög einöngruðu lífi undanfarin ár. Hann hafi starfað sem verkfræðingur en hefur verið í veikindaleyfi í tæp þrjú ár vegna álags í starfi. Þau eiga sjö ára gamlan son en fjölskyldan býr skammt fyrir utan bæinn Plouguerneaum Nord-Finistère, í um 30 km fjarlægð frá borginni Brest. 

Le Figaro

Samkvæmt Le Parisien neitar móðir Huberts, Evelyne, að trúa því að sonur hennar hafi myrt fjölskylduna. Evelyne, sem býr 300 metrum frá syni sínum og fjölskyldu, segir að Troadec-fjölskyldan sé enn á lífi og Hubert hafi ekki gerst sekur um saknæmt athæfi. Skiptir þar engu að hann hafi játað á sig morðin.

Evelyne segir að Lydie hafi veikst alvarlega af krabbameini fljótlega eftir fæðingu sonarins og hún hafi glímt við veikindi upp frá því.

Nágrannar þeirra segja að Hubert og fjölskylda hans hafi einangrast meir og meir og stundum hafi virst sem enginn hafi búið í húsinu mánuðum saman. Þau heilsuðu ekki nágrönnum, voru með öll ljós slökkt og mættu aldrei í nágrannaveislur. 

Pierre Sennes, saksóknari í Nantes.
Pierre Sennes, saksóknari í Nantes. AFP
Gríðarlegt eftirlit var með flutningi morðingjans á milli staða í …
Gríðarlegt eftirlit var með flutningi morðingjans á milli staða í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert