„Leggstu á jörðina núna“

Lögreglumaðurinn réðst á vegfarandann og henti honum í götuna þar …
Lögreglumaðurinn réðst á vegfarandann og henti honum í götuna þar sem hann barði hann svo ítrekað. Skjáskot úr myndbandinu

Lögreglumaður í Sacramento í Bandaríkjunum henti vegfaranda í götuna, hélt honum og lét kröftug högg ítrekað dynja á honum. Maðurinn hafði sér það til saka unnið að ganga yfir veg þar sem ekki var gangbraut.

Fjallað er ítarlega um málið í New York Times í dag. Myndband náðist af atvikinu. Þar má sjá að lögreglumaðurinn hefur afskipti af manninum þar sem hann er að gang yfir götu. „Leggstu á jörðina. Leggstu á jörðina núna,“ heyrist lögreglumaðurinn, sem er hvítur, segja á upptökunni við vegfarandann sem er svartur. Vegfarandinn maldar í móinn og þá ræðst lögreglumaðurinn snögglega að honum, kastar honum að bíl og lætur svo kröftug högg dynja á honum ítrekað. Lögreglumaðurinn handtók svo vegfarandann og ákærði vegna „mótþróa við handtöku.“

Annar lögreglumaður kom hlaupandi að og aðstoðaði félaga sinn við að handjárna manninn. „Við munum gefa þér tíma til að róa þig niður en í augnablikinu ógnar þú öryggi okkar,“ segir lögreglumaðurinn þegar hann hefur komið manninum handjárnuðum inn í lögreglubílinn.

Lögregluyfirvöld í Sacramento hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja að svo virðist sem aðgerðir lögreglunnar hafi verið tilefnislausar. Málið verður rannsakað.

Fjölmörg mál hafa komist í fréttir undanfarin ár þar sem hvítir lögreglumenn í Bandaríkjunum beita svarta borgara harðræði að ástæðulausu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert