Þetta er vitað um árásina

Theresa May forsætisráðherra kallaði ríkisstjórnina saman í dag vegna árásarinnar.
Theresa May forsætisráðherra kallaði ríkisstjórnina saman í dag vegna árásarinnar. AFP

Tíu særðust og einn lést eftir að sendibíl var ekið á hóp múslima í nágrenni mosku í London um miðnætti. 

Það sem vitað er um árásina á þessari stundu er eftirfarandi:

Vitni segja að hvítum sendibíl hafi verið ekið inn í hóp múslima sem voru að koma frá kvöldbænum í mosku í nágrenninu. Hópurinn var að sinna öldruðum manni sem fallið hafði í yfirlið á götunni. 

Lögreglan fékk fyrstu tilkynningu um árásina skömmu eftir miðnætti.

 Khalid Amin varð vitni að árásinni og sagði í samtali við BBC að bílstjórinn hefði öskrað „ég vil drepa múslima.“

Hvar átti árásin sér stað?

Árásin átti sér stað fyrir um 100 metrum frá mosku í Finsbury Park. Moskan var eitt sinn þekkt fyrir að vera skjólhús róttækra íslamista en hefur á undanförnum árum tekið að sér sáttarhlutverk milli ólíkra trúarhópa.

 Vettvangur árásarinnar er aðeins örfáum metrum frá járnbrautinni sem tengir London við Edinborg og stærstu verslun Lundúna með varning tengdum fótboltaliðinu Arsenal.

Hver er árásarmaðurinn?

Ökumaður sendibílsins er 48 ára gamall, hvítur karlmaður. Vegfarendur handsömuðu hann á staðnum og var hann síðar handtekinn af lögreglunni.

Hann var fluttur á sjúkrahús til skoðunar þar sem m.a. hann verður látinn gangast undir geðmat.

Hversu mörg voru fórnarlömbin?

Árásin var gerð á meðan hópur fólks hlúði að eldri manni sem hafði fallið í yfirlið. Maðurinn lést síðar en ekki er ljóst á þessari stundu hvort það var vegna áverka í kjölfar árásarinnar eða vegna veikinda, að sögn lögreglunnar. 

 Tíu særðust í árásinni. Þeir eru allir múslimar. Átta eru enn á sjúkrahús og tveir eru alvarlega slasaðir.

Hvers vegna eru margir íbúar reiðir?

Múslimar sem búa á þessu svæði gagnrýna að lögreglan hafi ekki talið að um hryðjuverkaárás væri að ræða í fyrstu. Segja þeir að ef múslimi hefði ekið bílnum hefði árásin strax verið skilgreind sem hryðjuverk. 

 Í fyrstu tilkynningu lögreglunnar í nótt, sem birt var skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma, kom fram að farartæki hefði lent í árekstri við vegfarendur.

Í tilkynningu sem barst rétt fyrir kl. 5 sagði að atvikið væri rannsakað sem hryðjuverk.

Fólk sem var á staðnum segir að það hafi tekið lögregluna of langan tíma að koma á staðinn. Maður sem hélt árásarmanninum niðri þar til lögreglan kom segir það hafa tekið lögregluna 20-30 mínútur að koma á vettvang.

Lögreglan segist hins vegar hafa brugðist strax við og að lögreglumenn sem voru í næsta nágrenni hafi verið komnir á staðinn mjög fljótlega. Þá hafi fleiri lögreglumenn verið kallaðir út strax í kjölfarið.

Hvernig hafa samtök múslima brugðist við?

Breska múslimaráðið, sem eru regnhlífarsamtök múslima í Bretlandseyjum, segja forgangsmál að auka öryggi múslima. „Á síðustu vikum og mánuðum hafa múslimar ítrekað orðið fórnarlömb íslamófóbíu og þetta er ofbeldisfyllsta tilvikið til þessa.“

 Eftir árás sem gerð var á Lundúnabrúnni þann 3. júní, þar sem menn tengdir íslömskum hryðjuverkasamtökum réðust á óbreytta borgara á bíl og með hnífum, hefur árásum gegn múslimum fjölgað. 

Þann 6. júní bárust lögreglu til að mynda tuttugu tilkynningar um slík atvik en þau hafa að meðaltali verið um 3,5 á dag í ár. 

Hvernig brugðust stjórnmálamenn við?

Forsætisráðherrann Theresa May hélt neyðarfund í ríkisstjórn sinni vega málsins í dag. Hún hét því að vinna gegn ofstæki.

„Umburðarlyndi gagnvart ofstæki hefur verið of mikið, þar á meðal múslimahatri,“ sagði hún. Hún sagði árásina áminningu um að hryðjuverk, ofstæki og hatur taki á sig ýmis form og að ráðast verði gegn slíku, „hver svo sem beri ábyrgðina.“

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, sagðist vera miður sín vegna árásarinnar. 

Borgarstjóri Lundúna sagði að árásin hefði verið „viljaverk“ og „hræðileg hryðjuverkaárás“ sem beindist gegn „saklausum Lundúnabúum.“

mbl.is