Austurríki bannar efnahagsráðherra Tyrklands

Þann 15. júlí verður eitt ár liðið frá misheppnaðri valdaránstilraun …
Þann 15. júlí verður eitt ár liðið frá misheppnaðri valdaránstilraun í Tyrklandi þar sem reynt var að steypa Erdogan af stóli. AFP

Nihat Zeybekci, efnahagsráðherra Tyrklands, hefur verið meinaður aðgangur að Austurríki þar sem hann hugðist taka þátt í fjöldafundi sem haldinn verður vegna þess að eitt ár er síðan misheppnaða valdaránstilraunin átti sér stað í Tyrklandi. 

Talsmaður utanríkisráðuneytis Austurríkis, Thomas Schnoell, sagði í samtali við AFP Zeybekci hafa verið meinaður aðgangur vegna þess að heimsókn hans væri ekki hluti af tvíhliða samkomulagi heldur aðeins til þess fallin að vera viðstaddur fjöldafund vegna valdaránsins. Schnoell segir að viðvera ráðherrans myndi skapa hættu á óspektum á almannafæri. 

Ekki kemur fram hvenær fundurinn á að eiga sér stað. 

Í síðustu viku hafði ríkisstjórn Hollands varað Tyrki við því að senda fulltrúa á sambærilegan fund þar í landi en reynt hefur á samskipti ríkja Evrópusambandsins og Tyrklands vegna herferðar stjórnvalda til þess að bæla niður mótmæli í kjölfar valdaránsins misheppnaða á síðasta ári.

Fyrr á þessu ári höfðu nokkur lönd í Evrópu bannað stuðningsfundi vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sem veitti forseta Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, yfirgripsmikil völd. Tyrkneskir ráðherrar höfðu ætlað að ferðast um Evrópu til þess að hvetja Tyrki búsetta þar til þess að samþykkja tillöguna.

Um 360.000 manns af tyrkneskum uppruna búa í Austurríki og þar af 117.000 tyrkneskir ríkisborgarar. Talið er að margir þeirra styðji Erdogan og hafi hjálpað honum að ná fram sigri í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert