Hvað gekk á í Charlottesville?

Hundruð mótmælenda komu saman við Háskólann í Virginíu á föstudagskvöld …
Hundruð mótmælenda komu saman við Háskólann í Virginíu á föstudagskvöld og hrópaði slagorð á borð við: Líf hvítra skipta máli og Gyðingar munu ekki koma í okkar stað. Skjáskot/YouTube

Hverjir bera ábyrgð á ofbeldinu í Charlottesville í Virginíu-ríki um helgina? Voru það hægri öfgamenn? Vinstri öfgamenn? Eða liggur sökin hjá báðum hópunum sem laust saman; hvítu kynþáttahöturunum sem komu í þúsunda vís til að mótmæla eða fólkinu sem mætti til að mótmæla þeirra boðskap? Hver er svo þáttur lögreglunnar í þessu öllu saman? 

Átökin í Charlottesville og voðaverkið sem þar var framið hafa vakið upp fjölmargar spurningar, m.a. um umburðarlyndi – eða skort á því – rétt fólks til að tjá skoðanir sínar – hverjar svo sem þær eru - og ofbeldi.

Saumaklúbbur sem breyttist í hanaat

Donald Trump Bandaríkjaforseti var hinn rólegasti við upphaf blaðamannafundar í New York í gær. Tilgangur fundarins var að tala um uppbyggingu innviða. Eins og við var að búast snéru fréttamennirnir sér þó fljótt að máli málanna; átökunum í Charlottesville sem enduðu með því að ekið var á hóp fólks með þeim afleiðingum að ein kona lést. Að minnsta kosti nítján slösuðust.

Til að átta sig á þeim miklu og oft á tíðum hörðu viðbrögðum sem ummæli Trumps á fundinum ollu er eðlilegt að byrja á því að rifja þau upp. Trump skipti nefnilega nokkuð snögglega um gír um miðjan fund, eða eins og spjallþáttastjórnandinn Jimmy Kimmel orðaði það í gærkvöldi: „Þetta var eins og saumaklúbburinn þinn myndi breytast í hanaat.“

Heather Heyer, 32 ára konu sem lést er bíl var …
Heather Heyer, 32 ára konu sem lést er bíl var ekið á hana í Charlottesville á laugardag, er minnst víða í borginni. AFP

Fljótlega eftir að fundurinn hófst var Trump spurður hvers vegna hann hefði beðið með að fordæma atburðina í Charlottesville. Trump neitaði að hafa gert það. „Það er mjög, mjög mikilvægt fyrir mig [að vita staðreyndirnar].“ Hann bætti svo við: „Ólíkt ykkur og ólíkt fjölmiðlunum, vil ég vita staðreyndirnar áður en ég gef út yfirlýsingar.“

Trump endurtók svo það sem hann sagði á mánudag; að hann fordæmdi hatrið, ofstækið og ofbeldið. Slíkt ætti ekki heima í Bandaríkjunum.

Forsetinn vildi svo aftur snúa sér að umræðunni um innviði og reyndi það ítrekað allan fundinn. En blaðamennirnir voru ekki sama sinnis.

Getur kallað þetta það sem þú vilt

„Var þetta hryðjuverk?“ spurði einn þeirra. Trump svaraði því til að ökumaður bílsins hefði orðið sér, fjölskyldu sinni og landi til skammar. „Þú getur kallað þetta hryðjuverk. Þú getur kallað þetta morð. Þú getur kallað þetta það sem þú vilt,“ sagði Trump. „Bílstjóri bílsins er morðingi. Það sem hann gerði var hræðilegt, hræðilegt og óafsakanlegt.“

Forsetinn var svo spurður um öldungadeildarþingmanninn John McCain og ummæli hans um tengsl hægri öfgamanna við það sem gerðist í Charlottesville.

Þá breyttist tónn Trumps.

Donald Trump sagðist vilja vera með staðreyndirnar á hreinu, ólíkt …
Donald Trump sagðist vilja vera með staðreyndirnar á hreinu, ólíkt fréttamönnum sem hefðu það oft ekki. AFP

Hann bað blaðamanninn um að skilgreina hvað „hægri öfgamaður“ væri. Svo sagði hann: „Hvað með vinstri öfgamennina sem réðust á, eins og þú kallar þá, hægri öfgamennina? Hafa þeir enga sektarkennd? Leyfðu mér að spyrja þig að þessu: Hvað með þá staðreynd að þeir réðust á, þeir réðust á með kylfur í hönd, sveifluðu kylfum? Eiga þeir við vandamál að stríða? Ég tel svo vera.“

Trump ítrekaði svo fyrri ummæli sín um að báðum fylkingum væri um að kenna. „Þú varst með hóp á annarri hliðinni sem var slæmur en þú varst með hóp á hinni hliðinni sem var einnig mjög ofbeldisfullur. Og enginn vill segja það. En ég skal segja það núna. [...] Þú varst með hóp á hinni hliðinni sem réðst inn án leyfis og hann var mjög, mjög ofbeldisfullur.“

Hvítir kynþáttahatarar, gráir fyrir járnum, ræða við fólk úr hópi …
Hvítir kynþáttahatarar, gráir fyrir járnum, ræða við fólk úr hópi þeirra sem kom til að mótmæla boðskap þeirra í Charlottesville. AFP

Spurður hvort hann setti fólkið sem mótmælti kynþáttahöturunum í sama flokk og nýnasista minnti Trump á að hann hefði fordæmt áður nýnasista. Hann sagði hins vegar hópinn sem mætti til að mótmæla niðurrifi styttunnar af Robert E. Lee, hershöfðingja suðurríkjanna í þrælastríðinu, ekki alla hafa verið nýnasista. Þeir hafi ekki allir verið hvítir kynþáttahatarar. Spurði hann því næst hvort að styttum af George Washington yrði næst steypt af stalli? Hann hefði haldið þræla í eina tíð. „Hvar endar þetta?“

Tengslin hafa batnað að mati Trumps

Trump var spurður hvort að honum þætti tengsl kynþátta í Bandaríkjunum hafa versnað eða batnað frá því að hann tók við embætti. „Ég held að þau séu betri eða þau sömu.“ Hann bætti svo við að aðgerðir sínar til að fjölga störfum í Bandaríkjunum ættu eftir að hafa mikil áhrif til hins betra á samskipti fólks af ólíkum kynþáttum.  Hann sagði málið snúast um störfin. „Það sem fólk vill núna eru störf. Það vill frábær störf og góð laun. Og þegar það fær það þá skaltu sjá hvernig samskipti kynþáttanna verða.“

Trump ítrekaði svo enn og aftur þá skoðun sína að ofbeldið væri ábyrgð beggja hópa. „Það var hópur á þessari hlið, þú getur kallað þá vinstrið, sem gerði ofbeldisfulla árás á hinn hópinn,“ sagði hann. „Þú getur sagt það sem þú vilt en svona var þetta.“

Tilefni fundarins í gær var að ræða um innviði. Atburðarásin …
Tilefni fundarins í gær var að ræða um innviði. Atburðarásin í Charlottesville varð þó fljótt aðalumræðuefnið. AFP

Spurður um hinn hópinn, þ.e. þá sem stóðu að mótmælunum sagði Trump enn og aftur að þeir hefðu ekki kallað sig nýnasista. „Og það var mjög slæmt fólk í þeim hópi. En það var þarna einnig mjög gott fólk í báðum fylkingum.“

Trump fór svo aftur að ræða um niðurrif styttunnar sem hann sagði fólkið hafa verið komið til að mótmæla. „Þú ert að breyta sögunni, þú ert að breyta menningunni,“ sagði hann um niðurrifið og bætti við að umfjöllun fjölmiðla um þá sem skipulögðu mótmælin hefði verið mjög óréttlát.

Spurður frekar út í þessi ummæli sagði hann að fólk hefði komið saman til að mótmæla niðurrifi styttunnar kvöldið áður (á föstudagskvöldinu). Þau mótmæli hafi verið mjög friðsamleg. Fólkið hafi haft rétt til að mótmæla. Það hafi hinn hópurinn hins vegar ekki haft.

Spurður hvort að hann ætlaði að fara til Charlottesville minnti Trump á að hann ætti hús þar.

- Er það víngerðin?

- Já, það er víngerðin. [...] Ég á í raun eina stærstu víngerð Bandaríkjanna. Og hún er í Charlottesville.

Styttan notuð sem yfirskyn fjöldafundar

Það er rétt hjá Trump að til mótmælanna hafði verið boðað í því yfirskyni að mótmæla niðurrifi styttunnar af Robert E. Lee. Fyrir þeim mótmælum hafði fengist leyfi borgaryfirvalda í Charlottesville. Forsprakki mótmælanna heitir Jason Kessler og er virkur meðlimur í hreyfingu hægri öfgamanna. En til viðbótar Kessler og félögum ákváðu margir hópar til viðbótar að mæta og taka þátt, m.a. nýnasistar og Ku Klux Klan. Aðrir hópar sem áttu fulltrúa á svæðinu kalla sig t.d. Identity Evropa, Proud Boys, Traditionalist Workers Party og American Vanguard. Mótmælin fóru fram undir yfirskriftinni Sameinum hægrið eða Unite the Right. 

Mótmælendur úr hópi hvítu kynþáttahataranna voru sumir hmeð alvæpni. Fólk …
Mótmælendur úr hópi hvítu kynþáttahataranna voru sumir hmeð alvæpni. Fólk úr hópi andstæðinga þeirra var einnig vopnað. AFP

Á föstudagskvöldinu söfnuðust hundruð mótmælenda saman við Háskólann í Virginíu með logandi kyndla og hrópuðu einum rómi níðyrði um gyðinga og fleiri. Þetta eru friðsamlegu mótmælin sem Trump minntist á. Í fréttum fjölmiðla hefur komið fram að til ryskinga kom þetta kvöld en þó ekki alvarlegra.

Undirrótin að mótmælum kynþáttahataranna er því mun dýpri en niðurrif styttunnar. Í fréttaskýringu Vice er rætt við þá sem boðuðu til mótmælanna og tóku þátt í þeim. Þeir fela sig ekki á bak við grímur heldur tala opinskátt um skoðanir sínar og hatur á öðrum kynþáttum en hinum hvíta. Einn þeirra segir að skoðanabræður hans séu ekki lengur aðeins að ræða sín á milli á netinu, nú séu þeir orðnir sýnilegri í raunheimum. Það hafi verið markmið mótmælanna.

Á laugardeginum mættu kynþáttahatararnir svo með hjálma á höfði og skildi fyrir brjósti á staðinn þar sem kröfuganga þeirra hafði verið boðuð. Á sama svæði mættu tugir andstæðinga þeirra. Smám saman færðist harka í samskipti hópanna og að endingu var ekið á hóp mótmælenda með þeim afleiðingum að ein kona lést. Ljóst er hver sat við stýrið á bílnum. Hann heitir James Alex Fields og er tvítugur. Hann hefur verið handtekinn og ákærður fyrir manndráp. Fram hefur komið í fjölmiðlum að Fields hafi aðhyllst kenningar nýnasista og tilheyrt einum af þeim hópi sem mættu til mótmælanna.

Lögreglan gagnrýnd

Margir hafa gagnrýnt að lögreglan hafi aðeins staðið átekta á meðan átökin mögnuðust og ekki gripið inní fyrr en of seint. Sjónarvottar segja að einstaklingar úr báðum fylkingum hafi verið vopnaðir, sumir aðeins vatnsflöskum, en aðrir kylfum og byssum. 

Félagi úr Ku Klux Klan, samtökum sem þekkt eru fyrir …
Félagi úr Ku Klux Klan, samtökum sem þekkt eru fyrir hatur sitt á öðrum kynþáttum en þeim hvíta, vopnaður priki í Charlottesville á mótmælum sem fram fóru í borginni í júlí. Að minnsta kosti þrír fjöldafundir hægri öfgamanna hafa farið fram í borginni síðustu vikur. AFP

Bent hefur verið á að mál- og skoðanafrelsi njóti ríkrar verndar 1. greinar stjórnarskrár Bandaríkjanna. Því megi nýnasistar og aðrir kynþáttahatarar koma saman, mótamæla og tjá skoðanir sínar eins og allir aðrir. Hins vegar hefur einnig verið bent á mögulega hafi þeir gengið of langt í Charlottesville því að hatursummæli, eins og níðorð gagnvart ákveðnum hópum fólks, séu að minnsta kosti á gráu svæði, ef ekki svörtu, hvað stjórnarskrárbundinn rétt fólks varði. Þetta er m.a. rakið í fréttaskýringu VOX. 

Ljóst er að einstaklinar úr báðum fylkingum beittu vopnum, flöskum, prikum, piparúða og hnefunum. En erfitt er að sjá hver átti upptökin, hver reiddi fyrst til höggs. Orð Trumps um að báðar fylkingar hafi átt sök að máli eiga því við ákveðin rök að styðjast. Margir vildu þó að hann gengi lengra í að fordæma hópana sem stóðu að mótmælunum og ekki setja alla þá sem voru í Charlottesville undir sama hatt. Fyrrverandi leiðtogi Ku Klux Klan tekur ummæli Trumps sérstaklega til sín og þakkar forsetanum fyrir stuðninginn á Twitter. Einn af núverandi leiðtogum samtakanna hefur í dag fagnað því að konan lést á laugardag. „Ef einhverjir þeirra deyja þá er okkur sama,“ segir Justin Moore. 

En hvað segja þeir sem voru á vettvangi átakanna í Charlottesville um hvað raunverulega gekk á?

(Ummælin eru fengin úr ítarlegri samantekt Los Angeles Times):

Ryan Kelly, ljósmyndari Daily Progress: „Ég fékk far með ritstjóranum mínum niður í bæ og ég fór að rölta um. Það voru þarna hópar beggja vegna. Það voru nokkur minniháttar slagsmál sem brutust út annað slagið. Fólk henti hlutum í hvert annað. Nokkrir voru að slást.“

Blake Montgomery, fréttastjóri BuzzFeed: „Flestir úr hópi hvítu kynþáttahataranna og nasista-hópanna, komu vopnaðir eins og skæruliðar – báru skildi, annan hlífðarbúnað, kylfur og já, fullt af byssum og báru fyrir sig vopnalögum í Virginíu. Þeir notuðu hernaðarlega tilburði, hrópuðu skipanir hver á annan um að „gera áhlaup“ eða „hörfa“. Þeir mynduðu fylkingar með skjöldunum. Þetta var eins og að horfa á [kvikmyndina] 300 nokkrum sinnum. Það var eins og þeir hefðu æft þetta.“

Hvítir kynþáttahatarar frá ýmsum samtökum komu saman til að mótmæla …
Hvítir kynþáttahatarar frá ýmsum samtökum komu saman til að mótmæla í Charlottesville. AFP

Hunter Wallage, bloggari á hægri öfgasíðunni Occidental Dissent: „Það voru engir tálmar við göturnar. Ofbeldisfullir anti-fasistar voru ekki króaðir af á sínu svæði eins og sagði í samningi okkar við lögregluna í Charlottesville, heldur voru fóru þeir um göturnar og heftu aðganginn að Lee-garði. Þeir réðust strax á okkar hóp með piparúða, múrsteinum, prikum og öðrum vökva. Lögreglan stóð hljóð á hliðarlínunni á meðan ryskingar urðu. Við urðum að brjóta okkur leið inn í Lee-garð og tylft úr okkar hópi meiddist vegna piparúða er við gengum saman í gegnum göngin.“

Marcus Cicero, bloggari á hægri öfgasíðunni Occidental Dissent: „Fyrir gönguna á laugardag kom League of the South [hópur sem stóð að göngunni] saman á svæði skammt frá Lee-garði. Ég var sjálfur einn af þeim sem bar skjöld. Þegar við fórum að garðinum sá ég hjörð anti-fasista og annarra hópa sem voru tilbúnir að hindra för á okkar áfangastað.“

Matt Parrott, úr hópi hvítra kynþáttahatara sem kallar sig Traditionalist Youth Network: „Með háværu uppreisnaröskri braut League [of the South] sér leið í gegnum vegg hinna úrkynjuðu og náði að komast inn í Lee-garð.“

Joe Heim, blaðamaður Washington Post: „Andstæðingar mótmælendanna svöruðu fyrir sig, þeir sveifluðu einnig prikum, kýldu og úðuðu efnum. Aðrir hentu blöðrum fullum af bleki eða málningu á hvítu kynþáttahataranna. Það virst sem ofbeldi væri að brjótast út alls staðar. Lögreglan gerði ekkert til að stöðva slagsmálin.“

Blake Montgomery, fréttastjóri BuzzFeed: Andstaðan var að stórum hluta óskipulögð, hélt til í öðrum görðum með vatn, kaffi, mat og búnað til fyrstu hjálpar. Átökin byrjuðu eins og alltaf gerist í göngum hægri öfgamanna: Tveir menn, einn úr sitt hvorum hópnum, öskra og ögra hvor öðrum til að verða fyrstur til að slá.“

Mótmælendur og blaðamenn flýja eftir að lögreglan beitti táragasi í …
Mótmælendur og blaðamenn flýja eftir að lögreglan beitti táragasi í Charlottesville. AFP
mbl.is