Vopnabúr í Úkraínu eldi að bráð

Sprengingar í vopnabúrinu í nótt.
Sprengingar í vopnabúrinu í nótt. AFP

Rúmlega 30 þúsund manns voru flutt frá heimilum sínum í héraðinu Vinnytsia í miðhluta Úkraínu í kjölfar þess að eldur kom upp í stóru vopnabúri með tilheyrandi sprengingum. Saksóknarar telja mögulegt að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Þetta er í annað sinn sem eldur kemur upp í vopnabúri á vegum úkraínska hersins en það gerðist einnig í mars samkvæmt frétt AFP. Þá sökuðu ráðamenn í Kænugarði rússnesk stjórnvöld og uppreisnarmenn í austurhluta landsins, sem studdir eru af Rússum, um að bera ábyrgð á eldsvoðanum. Því var hins vegar hafnað af báðum aðilum.

Rannsókn er hafin á því hvort um skemmdarverk hafi verið að ræða. Engar fréttir hafa borist af manntjóni. Aðeins er vitað um tvö minni háttar slys á fólki. Um 83 þúsund tonn af skotfærum voru geymd í vopnabúrinu sem er eitt það stærsta í landinu.

Sprengingarnar heyrðust víða í nágrenninu og urðu skemmdir á byggingum vegna höggbylgjunnar frá þeim. Haft er eftir íbúa á svæðinu að skemmdirnar hafi verið miklar á sumum heimilum. Gluggar hafi brotnað og hurðir þeyst af hjörunum.

Fallbyssukúlur sprungu hver á fætur annarri

Forseti Úkraínu, Petró Prósjenko, hefur fyrirskipað yfirmanni úkraínska hersins og forsætisráðherra landsins, Volodimír Groysman, að tilkynna sér beint um þróun rannsóknar málsins sem þykir undirstrika alvarleika þess.

„Þetta er vopnabúr úkraínska hersins og ég tel ekki að það hafi verið tilviljun að það hafi verið eyðilagt,“ er haft eftir Groysman. Fram kemur í yfirlýsingu frá hernum að um 30% vopnabúrsins hafi eyðilagst í eldinum og sprengingunum.

Fólk af svæðinu flutt á brott.
Fólk af svæðinu flutt á brott. AFP

Eldurinn kom upp um klukkan 19:00 í gærkvöldi að íslenskum tíma. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni varð eldurinn til þess að fallbyssukúlur sprungu hver á fætur annarri. Flugvellir í nágrenninu voru lokaðir af öryggisástæðum.

Vangaveltur eru uppi á meðal úkraínskra embættismanna um að hugsanlega hafi sprengjum verið varpað á vopnabúrið úr dróna. Rússnesk stjórnvöld og uppreisnarmenn í austurhluta Úkraínu hafa líkt og í fyrra skiptið neitað því að tengjast málinu. 

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert