Gott kvöld þú vannst hæsta vinning í sögu Víkingalottósins

Lottóspilari velur tölur sínar. Kona í Ósló féll í 4,3 ...
Lottóspilari velur tölur sínar. Kona í Ósló féll í 4,3 milljarða lukkupott í gær og ætlar í spa til að ná öxlunum niður. AFP

Fátt hafa Norðmenn skrafað meira um sín á milli í dag en konu í Ósló sem gerði sér lítið fyrir í gærkvöldi og hirti hæsta vinning í sögu Víkingalottósins óskiptan en þar var um að ræða rúmlega 341 milljón norskra króna sem er jafnvirði 4,3 milljarða íslenskra króna.

Norska ríkisútvarpið NRK birtir á vefsíðu sinni myndband frá Norskri getspá (Norsk tipping) af því þegar Nina Rundsveen, vinningahringjari getspárinnar, hringir í vinningshafann í gærkvöldi og segir: „Gott kvöld, einn vinningshafi hefur hlotið hæsta vinning nokkru sinni í sögu Víkingalottósins, upphæðin er 341.285.000 krónur [þögn], þetta er alveg satt og þú hefur unnið þennan pott [Rundsveen hlær]. Þetta er dálítið mikið meira en 341 króna.“

Milljarðamæringurinn nýbakaði vill ekki láta nafns síns getið og hefur eingöngu rætt við norska fjölmiðla fyrir milligöngu Norskrar getspár. Konan segist ekki hafa sofið eina sekúndu í nótt og hennar fyrsta verk verði að fara í spa til að ná að slaka öxlunum niður aftur sem hún segir hafa gengið erfiðlega.

Fjölskyldan trúði ekki orði

Konan hringdi í nánustu ættingja sína til að greina frá hinum nýfengna auði en enginn trúði henni fyrr en hún beitti ýtrustu fortölum. Hún játar að hafa lengi alið með sér þann draum að hljóta risavinning í lottóinu og ljóstrar því enn fremur upp að hún hafi fyrir nokkru vistað vinningasímanúmer Norskrar getspár, 625-60000, í síma sínum en hringt er í alla vinningshafa sem hljóta eina milljón norskra króna eða meira í vinning, frá höfuðstöðvum Norskrar getspár í Hamar, rúma 100 kílómetra norður af Ósló. Slík númeravistun er þá ef til vill ekki síður til happs en afmælisdagar og húsnúmer á lottómiðanum.

Ingrid Mathisen, vinningastjóri Norskrar getspár, segir í samtali við norska dagblaðið VG í dag að milljarðakonan hafi átt samtöl við ráðgjafa fyrirtækisins en öllum stærri vinningshöfum bjóðist fjármálaráðgjöf auk þess sem þeim sé fylgt vel eftir fyrstu skrefin í lífi sínu sem milljóna- eða milljarðamæringar.

Teljum okkur bera ábyrgð

„Við teljum okkur bera ábyrgð,“ segir Mathisen. „Á meðan við útdeilum slíkum peningaupphæðum telst það óforsvaranlegt að gera svo ekkert meira. Þegar upphæðir á borð við þá, sem þessi kona vann, eru í spilinu koma upp spurningar um fjárfestingakosti þeirra peninga sem þú nærð ekki að nota þegar búið er að borga niður lán og fara í frí. Góðgerðarmál er líka umræðuefni sem vert er að ræða þegar komið er upp í slíkar summur,“ segir hún að lokum.

Vinningurinn í gær er sá næsthæsti sem Norsk getspá hefur greitt út í sögu sinni en sá hæsti féll 18. ágúst þegar norskur maður hlaut 441 milljónar króna vinning, rúma 5,5 milljarða íslenskra króna, í Eurojackpot.

mbl.is
www.apartment-eyjasol.is - Reykjavik-
1 and 2 bedroom apartments in Reykjavik. Beds for 4-6 pers. Be welcome eyjasol@...
Bátakerru stolið
Þessari kerru var stolið um Hvítasunnuhelgina í bryggjuhverfinu í Reykjavík. Þei...
 
Félagsstarf aldraðra
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9 og f...
Framhalds uppboð
Nauðungarsala
Uppboð Einnig birt á www.naudungar...
Samkoma
Félagsstarf
Fjáröflunarsamkoma Kristniboðsfélags k...
Tillaga að deiliskipulagi
Tilkynningar
Breiðdalshreppur Tillaga ...