Trump: Neitar að upplýsa samræður þeirra feðga

Donald Trump Jr. sonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, segist ekki geta …
Donald Trump Jr. sonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, segist ekki geta greint frá samræðum þeirra feðga um fundinn með Rússum. AFP

Donald Trump Jr., sonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, neitar að greina þingnefnd sem rannsakar meint afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum frá viðræðum sínum við föður sinn. Adam Schiff, einn þeirra öldungadeildaþingmanna demókrata sem eiga sæti í njósnanefndinni, segir Trump yngri hafa borið við trúnaði sem ríki milli lögfræðings og skjólstæðings hans.

Guardian segir Trump hafa neitað að greina nefndinni frá samræðum sem þeir áttu í kjölfar þess að upp komst um umdeildan fund starfsmanna framboðs Trump og Rússa í Trump turninum árið 2016. Trump yngri sagði nefndinni þó við yfirheyrslurnar sem stóðu í átta tíma að hann hefði ekki sagt forsetanum frá fundinum á þeim tíma sem hann fór fram. Hann neitaði hins vegar að greina frá því hvað þeim hefði  farið á milli eftir að upplýsingar um fundinn urðu opinberar.

Schiff sagði Trump hafa staðhæft að hann gæti ekki tjáð sig um fundinn, eða tölvupósta sem þeim fóru á milli um hann, af því að lögfræðingur hafi verið viðstaddur samræður þeirra feðga. Guardian segir trúnaði lögfræðings við skjólstæðing venjulega vera borið við þegar lögfræðingur er kallaður til að bera vitni um samskipti viðskiptavinar.

Robert Mueller, sérstakur saksóknari bandarísku alríkislögreglunnar FBI sem rannsakar meint afskipti Rússa, hefurinn einnig mikinn áhuga á fundinum í Trump turni. Auk Trumps hins yngri sat Jared Kushner, tengdasonur Trump, einnig fundinn með Rússunum sem haldin var þar sem talið var að Rússarnir byggju yfir upplýsingum sem gætu skaðað Hillary Clinton mótframbjóðanda Trump.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert