Fjölskyldur eigi að sameinast í Aleppo

Frá Aleppo í lok nóvember. Formaður Danska þjóðarflokksins telur að …
Frá Aleppo í lok nóvember. Formaður Danska þjóðarflokksins telur að sýrlenskar fjölskyldur eigi að sameinast í heimalandinu, í borgum eins og Aleppo. AFP

Formaður Danska þjóðarflokksins (Dansk Folkeparti, DF), Kristian Thulesen Dahl, verður jafnvel að ósk sinni um að Danir herði enn á reglum varðandi móttöku flóttafólks en hann telur að Sýrlendingar sem þar eru eigi að sameinast fjölskyldum sínum í Aleppo ekki í Danmörku.

Mjög er tekist á um fjárlög næsta árs og hefur ríkisstjórn Lars Løkke Rasmussen staðið í ströngu við að ná samkomulagi DF en flokkurinn ver ríkisstjórn Venstre falli. DF hefur aldrei átt ráðherra í ríkisstjórn.

Rasmussen er að reyna að ná samkomulagi um ný fjárlög og skattalækkanir fyrir árslok.

Meðal þess sem Dahl hefur farið fram á er að ríkisstjórnin samþykki kröfur DF varðandi innflytjendur. Allt bendir til þess að Rasmussen sé reiðubúinn til þess að breyta reglum varðandi fjölskyldusameiningu sem og að þeir sem fá tímabundið hæli verði gert að snúa aftur til síns heima.

Hefð er fyrir því að fólk fái vernd til þriggja ára og svo verði hælisleitendur að sækja um vernd að nýju. Ef þessum reglum verður breytt þá mun þetta hafa mikil áhrif á hóp Sýrlendinga sem komu til Danmerkur árið 2015.

Aleppo eftir loftárás 21. nóvember en yfir 20 manns létust …
Aleppo eftir loftárás 21. nóvember en yfir 20 manns létust í árásinni. AFP

Að sögn Rasmussen má gera ráð fyrir að þeir 4.200 Sýrlendingar sem eru í Danmörku fái ekki möguleika á að fá fjölskyldumeðlimi til sín í Danmörku verði farið að kröfum Dahl.

Samkvæmt núgildandi reglum þurfa flóttamenn sem fá hæli í Danmörku að bíða í þrjú ár þangað til þeir geta óskað eftir fjölskyldusameiningu í Danmörku. Dahl fer hins vegar fram á grundvallarbreytingu á núgildandi reglum.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að endurskoða réttinn á fjölskyldusameiningu sem þessi hópur fær eftir þrjú ár. Það er ljóst að ef þú getur fljótlega snúið aftur, til að mynda til Aleppo í Sýrlandi, þá eigi fjölskyldan að sameinast þar,“ segir Dahl í samtali við Ritzau.

Hann segir að þar eigi að aðstoða flóttafólk við að endurbyggja heimili sín og skapa sér framtíð. „Ekki með fjölskyldusameiningu í Danmörku,“ segir Dahl.

Samkvæmt tölum Alþjóðafólks­flutn­inga­stofn­un­ar­inn­ar (IOM) hafa 405.420 Sýrlendingar snúið aftur til Aleppo á tímabilinu janúar til júlí 2017. Meirihlutinn, 93%, af þeim sem hafa snúið til síns heima í Sýrlandi var á vergangi í heimalandinu. 

Alls óskuðu 21 þúsund flóttamenn eftir hæli í Danmörku árið 2015, árið sem flestir flúðu til Evrópu frá Sýrlandi. DF telur að ef fjölskyldur fá að sameinast í Danmörku þá séu minni líkur að sögn flokksmanna „að losna við flóttafólkið úr landi“ þrátt fyrir að heimalandið sé talið öruggt. Þess vegna hefur flokkurinn lagt áherslu á að semja um þetta gegn stuðningi við fjárlögin.

Umfjöllun Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert