Börn notuð sem skiptimynt

Starfsmenn Alþjóða rauða krossins aðstoða við að koma börnum frá …
Starfsmenn Alþjóða rauða krossins aðstoða við að koma börnum frá Douma í Austur-Ghouta. AFP

Yfirmaður hjá Sameinuðu þjóðunum óttast að sýrlensk börn, sem bíði þess að verða flutt frá svæði í nágrenni höfuðborgarinnar sem hefur verið í herkví, séu notuð sem skiptimynt.

Jan Egeland, yfirmaður sendinefndar Sameinuðu þjóðanna gagnvart Sýrlandi, segir í samtali við BBC að hann hafi heyrt að uppreisnarmenn á svæðinu hafi samþykkt að sleppa starfsmönnum ríkisstjórnarinnar úr haldi gegn því að börn í neyð verði flutt af svæðinu.

Stjórnarherinn hefur haldið svæðinu, Austur-Ghouta, í herkví frá árinu 2013. 

Tólf sjúklingum var komið þaðan í gær og fjórum á þriðjudag. Í dag er búist við að þrettán sjúk börn verði flutt þaðan og til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Damaskus.

Mohamad Katoub, sem fer fyrir læknasamtökunum Sams, segir í samtali við BBC að erfitt sé að meta hverjir séu í brýnustu þörfinni fyrir aðstoð þar sem börnin væru eitt af öðru að deyja. Á morgun stóð t.d. til að flytja eina stúlku „en þegar foreldrunum var sagt að loksins ætti að flytja litlu stúlkuna þeirra þá sögðu þau að hún hefði dáið fyrir nokkrum dögum“.

Lítill drengur í sjúkrabíl Alþjóða rauða krossins í Douma í …
Lítill drengur í sjúkrabíl Alþjóða rauða krossins í Douma í Austur-Ghouta. AFP

Um 400 þúsund íbúar Austur-Ghouta hafa búið við gríðarlegan skort og í mikilli neyð síðustu misseri. Loks hafa stjórnarherinn og uppreisnarmenn samið um flutning sjúkra barna frá svæðinu og Egeland fagnar því. En hann minnir á að ekki séu allir samningar af hinu góða. „Það geta líka verið slæmir samningar. Það er ekki góður samningur ef þeir eru að skipta á veikum börnum fyrir fanga sem þýðir að veik börn eru notuð sem skiptimynt í hræðilegu stríði. Þannig á það ekki að vera.“

Sá hópur uppreisnarmanna sem stærstur er í Austur-Ghouta, Jaysh al-Islam, segir í færslu á Twitter að ríkisstjórnin hafi samþykkt flutning barnanna af svæðinu gegn því að 29 fangar yrðu leystir úr haldi uppreisnarmanna.

Egeland minnir á að heilbrigðisþjónusta í Sýrlandi sé á mörgum stöðum í rúst. Þannig sé ástandið í Austur-Ghouta því skelfilegt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert