Katalóníudeilan kostað 150 milljarða

Skapti Hallgrímsson

Fjármálaráðherra Spánar, Luis de Guindos, segir deiluna um sjálfstæði Katalóníu hafa kostað landið um milljarð evra, sem samsvara tæpum 150 milljörðum íslenskra króna. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann á spænskri útvarpsstöð, en BBC greinir frá.

Hann sagði kostnaðinn aðallega til kominn vegna þess hve hægt hefur á katalónskum efnahag síðan ólögmæt sjálfstæðisyfirlýsing héraðsins var gefin út þann 1. október síðastliðinn.

Í kosningum síðasta mánaðar lögðu yfirvöld í Madríd hvað helst áherslu á þann efnahagslega skaða sem hlytist af sjálfstæði Katalóníu, en þetta er hæsti áætlaði kostnaður deilnanna til þessa.

De Guindos sagði hagvöxt í Katalóníu hafa minnkað úr 0,9% í 0,4% á síðasta fjórðungi ársins, og að hagvöxtur í Katalóníu sé venjulega hærri en hagvöxtur landsins í heild. Katalónía héldi efnahagi Spánar á floti en á síðasta ársfjórðungi hefði héraðið orðið landinu byrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert