Norðmenn stöðva vopnasölu til Sameinuðu arabísku furstadæmanna

Jemenskir menn meta tjón á brú þar í landi vegna …
Jemenskir menn meta tjón á brú þar í landi vegna loftárása bandalags Sádi-Araba þann 25. desember. AFP

Norðmenn hafa lokað fyrir sölu vopna til Sameinuðu arabísku furstadæmanna vegna gruns um að vopnin séu notuð í stríðinu í Jemen.

Furstadæmin eru hluti af hernaðarbandalagi Sádi-Araba sem myndað var árið 2015 í þeim tilgangi að berjast gegn uppreisnarmönnum húta í Jemen. Yfir 10.000 manns hafa týnt lífinu vegna stríðsins í Jemen og yfir 3 milljónir hafa misst heimili sín.

Þó ekki liggi fyrir sönnunargögn þess efnis að vopn framleidd í Noregi hafi verið notuð í stríðinu þá telur utanríkisráðuneyti Noregs líkur á því sökum hernaðarafskipta Sameinuðu arabísku furstadæmanna í Jemen. 

Norðmenn hafa nú afturkallað leyfi til útflutnings vopna til furstadæmanna tímabundið og segja nýtt leyfi verði ekki gefið út undir núverandi kringumstæðum. Vopnasala Norðmanna til furstadæmanna nam 79 milljónum norskra króna (rúmur milljarður íslenskra króna) árið 2016 en 41 milljón norskra króna árið 2015.  

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru sambandsríki sjö furstadæma á suðausturhorni Arabíuskagans. Furstadæmin eru Abú Dabí, Adsman, Dúbæ, Fúdsaíra, Ras al-Kaíma, Sjarja og Úmm al-Kúvaín. 

Fréttastofa Reuters greindi frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert