Enginn samningur við Úganda

Yfirvöld í Úganda segja ekki rétt að þau hafi samþykkt að taka á móti þúsundum flóttafólks frá Afríku sem hafa komið til Ísrael með ólöglegum hætti.

Stjórnvöld í Ísrael greindu frá því í gær að verið væri að setja á laggirnar áætlun um að neyða 38 þúsund efnahagslega flóttamenn (migrants) til þess að yfirgefa landið. Flestir þeirra koma frá Súdan og Erítreu. Ekki var greint nákvæmlega frá því hvert þeir yrðu sendir en staðfest að of hættulegt sé að senda þá til heimalandsins, Súdan og Erítreu. 

Aðgerðarsinnar í Ísrael héldu því fram að yfirvöld í Ísrael hefðu gert samning við Rúanda og Úganda um að taka við flóttafólkinu. En Úganda kannast ekki við slíkt samkomulag.

Utanríkisráðherra Úganda,  Henry Okello Oryem, segir að fréttirnar í gær hafi komið þeim í opna skjöldu enda sé ekkert slíkt samkomulag í gangi. Yfirvöld í Rúanda hafa ekki tjáð sig um málið. 

Flóttafólkið verður að vera farið frá Ísrael í lok mars. Hvert þeirra fær flugmiða og farareyri, 3.500 bandaríkjadali, 366 þúsund krónur. Þeir sem fara ekki eftir þessu verða fangelsaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert